Stjórnarskrárfrumvarp Stjórnlagaráð að störfum í Kennaraháskólanum.
Stjórnarskrárfrumvarp Stjórnlagaráð að störfum í Kennaraháskólanum. — Morgunblaðið/Golli
Skúli Hansen skulih@mbl.is Meirihluti velferðarnefndar Alþingis afgreiddi í fyrradag umsögn sína um frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er velferðarnefnd fyrsta þingnefndin sem lýkur umsögn sinni um frumvarpið.

Skúli Hansen

skulih@mbl.is

Meirihluti velferðarnefndar Alþingis afgreiddi í fyrradag umsögn sína um frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er velferðarnefnd fyrsta þingnefndin sem lýkur umsögn sinni um frumvarpið.

„Í fyrsta lagi tel ég málið vera algjörlega vanbúið. Í öðru lagi er ekki búið að framkvæma neitt mat á því hverjar afleiðingarnar yrðu af þeim texta sem frumvarpið um stjórnarskrána felur í sér, t.d. er engum ljóst á þessari stundu hvaða lagabreytingar þetta muni kalla á og það er engum ljóst á þessari stundu hvaða afleiðingar þetta hefði fyrir velferðarkerfið eða fyrir vinnumarkaðinn, svo dæmi sé tekið,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í velferðarnefnd.

Að sögn Einars vekur meirihlutinn í umsögn sinni athygli á margs konar veikleikum í texta frumvarpsins og greinargerð þess. Að mati Einars hefði umsögnin því átt að leiða til umtalsverðra breytinga á texta frumvarpsins en gerir það ekki. Hann bendir á að minnihluti nefndarinnar muni skila áliti sínu á frumvarpinu í næstu viku.

Þá segir Einar meirihlutann hafa gert eina breytingartillögu á texta frumvarpsins. Sú breyting sé út af fyrir sig skref í rétta átt en þó alls ekki nægjanleg. Að sögn hans felst breytingin í því að 2. mgr. 25. gr. frumvarpsins þar sem nú stendur „Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, svo sem hvíldar, orlofs og frítíma. Öllum skal tryggður réttur til sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu“ muni breytast á eftirfarandi máta: „Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, svo sem aðbúnaðar, öryggis, hvíldar, orlofs og frítíma. Öllum skal með lögum tryggður réttur til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.“

Meginbreyting á vinnumarkaði

„Það skiptir afar miklu máli þegar verið er að semja stjórnarskrá að allir þeir sem við hana eiga að búa séu algjörlega vissir um hvað hugtök þýða, því að öðrum kosti er verið að hlaða allskonar dómsmálum inn í réttarkerfið,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, spurður út í viðbótarathugasemd sem SA sendu til atvinnuveganefndar.

Í viðbótarathugasemdinni varar SA við að orðalag, sem finna má í 2. mgr. 25. gr. frumvarpsins, um að öllum skuli tryggður réttur til að semja um starfskjör sín sé þannig að verið sé að flytja kjarasamningsréttinn frá stéttarfélögum og gera hann einstaklingsbundinn. „Slíkt væri meginbreyting á því fyrirkomulagi sem ríkir á íslenskum vinnumarkaði,“ segir í viðbótarathugasemd SA.

Stjórnarskrárfrumvarp
» Utanríkismálanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hafa einnig fundað um stjórnarskrárfrumvarpið en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins liggja þar ekki enn fyrir drög að umsögnum um frumvarpið.
» Að sögn Einars K. Guðfinnssonar mun minnihluti velferðarnefndar skila áliti sínu í næstu viku.