Í fyrsta sinn á heimsmeistaramóti í handknattleik verða blóðprufur teknar af leikmönnum samhliða hefðbundnum þvagprufum hjá þeim sem gangast undir lyfjapróf að loknum kappleikjum HM á Spáni.
Nokkur ár eru síðan farið var að taka blóðprufur af íþróttamönnum samhliða þvagsýnum en með rannsóknum á blóði er enn betur og á öruggari hátt hægt að skima eftir hvort íþróttamenn hafi neytt ólöglegra lyfja. Mörg nýrri efni, sem sumir íþróttamenn freistast til þess að nota, finnast ekki við rannsókn á þvagsýnum.
Alþjóðahandknattleikssambandið hefur fyrir nokkru samþykkt að gangast undir alþjóðlegar reglur, gefnar út af WADA (Alþjóðalyfjaeftirlitið í íþróttahreyfingunni) um lyfjaeftirlit og þar með var ekki hægt að komast hjá því að taka blóðsýni úr handknattleiksmönnum til rannsóknar.
Einn leikmaður úr hverju liði er kallaður í lyfjaeftirlit eftir hvern einasta leik á heimsmeistaramóti.
iben@mbl.is