Í okkar nútímasamfélagi er aldur orðinn að hálfgerðu tabúi sem er algjör vitleysa því aldurinn færir okkur jú dýrmæta lífsreynslu. En nútímamaðurinnn virðist margur engan tíma eða áhuga hafa á að hlusta á vitran öldung miðla af viskubrunni sínum. Miklu frekar hlaupum við upp til handa og fóta þegar nýtt hrukkukrem kemur á markað. Eða verðum mjög upprifin þegar við heyrum af yngingar-þessu eða hinu. Nú komst ég á fertugsaldurinn í fyrra og finn að mér er orðið meira umhugað um aldurinn en áður. Ég skal viðurkenna að stundum þykist ég sjá hrukkur sem enginn annar sér en oftast reyni ég þó að taka þessu af stóískri ró. Þá sérstaklega þegar ég fylgist með frábærum konum sem samkvæmt tölunni eru orðnar „gamlar" en eru greinilega ungar í aldri. Slíkar konur eru stundum með mér í búningsklefanum eftir sund. Þær eru þá búnar að liðka sig í sundleikfimi og spjalla mikið saman að því loknu. Rifjaðar eru upp útlandaferðir í gamla daga, ein fer í peysuna öfuga og skellihlær að vitleysunni í sér og önnur segist ekki skilja í manninum sínum að flakka svona á milli sjónvarpsstöðva. Hvort það geti virkilega verið að hann skoði ekki dagskrána? Þeirri þriðju er strítt á að flýta sér svona mikið, er hún á leið í bíó eða hvað? Að hlusta á þessar mætu konur er eins og að hlusta á konur á mínum aldri spjalla og það finnst mér frábært. Líka að amma mín sem varð 77 ára í vikunni blandi kokteil handa manni áður en farið er á ball. Þar dönsuðum við síðan saman út í nóttina og amma „gamla“ gaf ekkert eftir.
Flestir sem ungir eru óttast sjálfsagt að einhverju leyti þá staðreynd að verða gamlir og sá hluti lífsins er víst óumflýjanlegur. En svo lengi sem maður býr að góðri heilsu ber að þakka hvern dag og vera jákvæður og glaður. Þetta á í raun við hvaða aldur sem er, njóta ber dagsins, sýna æðruleysi og safna eins mörgum broshrukkum og maður getur.