Sérstakur saksóknari hefur ákært fyrrverandi starfsmann flokkahóps íhaldsmanna í Norðurlandaráði fyrir umboðssvik á árunum 2009 til 2011. Maðurinn sveik út rúmar 19 milljónir króna á tímabilinu og tók til dæmis sjaldnast minna út úr hraðbönkum en 100 þúsund krónur í einu.
Maðurinn sem er þrítugur, nú með lögheimili í Rúmeníu, var ritari flokkahóps íhaldsmanna í Norðurlandaráði. Sem slíkur hafði hann aðstöðu á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins í Valhöll en var ekki starfsmaður flokksins. Vegna starfa sinna fékk hann þó kreditkort frá Sjálfstæðisflokknum og var honum ætlað að greiða með því útgjöld tengd störfum flokkahópsins.
Grunsemdir vöknuðu á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins og fór svo að flokkurinn kærði manninn til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra í apríl 2011. Þegar málið kom upp hvarf maðurinn sporlaust. Utanríkisráðuneytið var beðið um aðstoð við að hafa uppi á honum og fannst hann í New York.
321 úttekt af korti
Í ákæru sem gefin var út 18. desember sl. er maðurinn ákærður fyrir að misnota aðstöðu sína og skuldbinda Sjálfstæðisflokkinn þegar hann í 321 skipti notaði kreditkort flokksins til úttekta á reiðufé, kaupa á vörum og þjónustu fyrir 19,4 milljónir króna. Hann tók til dæmis 100 þúsund krónur út úr íslenskum hraðbönkum í 82 skipti. Margar háar úttektir voru hjá flugfélögum og raunar víða um lönd. Hæsta einstaka færslan nam 510 þúsund krónum vegna viðskipta við úrsmíðameistara í Vínarborg í september 2010.Sjálfstæðisflokkurinn gerir þá kröfu í málinu að maðurinn verði dæmdur til að greiða flokknum upphæðina alla, þ.e. 19,4 milljónir króna, auk vaxta. Þá er þess krafist að maðurinn greiði flokknum málskostnað að skaðlausu. andri@mbl.is