Guðjón Valur Sigurðsson leikur nú á 16. stórmóti sínu í röð með íslenska landsliðinu í handknattleik. Hann jafnar þar með met Ólafs Stefánssonar sem leikið hefur á 16 stórmótum, þ.e. heims- og Evrópumótum og Ólympíuleikum. Ólafur náði 16. mótinu á liðnu sumri á Ólympíuleikunum.
Guðjón Valur hefur tekið þátt í sjö Evrópumótum, þrennum Ólympíuleikum og HM sem hefst á Spáni í dag verður hans sjötta heimsmeistaramót á ferlinum. Það sem meira er; hann hefur verið með á öllum lokamótum sem íslenska landsliðið hefur tekið þátt í frá árinu 2000. Guðjón Valur var svo að segja nýliði í landsliðinu á EM í Króatíu fyrir 13 árum, þá aðeins tvítugur að aldri.
Ólafur tók þátt í 16 af 17 mótum sem íslenska landsliðið vann sér keppnisrétt á frá HM 1995 á Íslandi til og með Ólympíuleikunum í London á síðasta sumri. Eina mótið sem Ólafur missti úr á þessu tímabili var EM 2012 í Serbíu.
Enginn þeirra slær þó enn út Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóra HSÍ, sem verður með landsliðinu í för á Spáni. Hann hefur verið viðloðandi landsliðið á a.m.k. 22 stórmótum, fyrst sem leikmaður, síðan sem aðstoðarlandsliðsþjálfari og síðar sem fararstjóri og framkvæmdastjóri HSÍ. iben@mbl.is