Halldór Gunnarsson
Halldór Gunnarsson
Eftir Halldór Gunnarsson: "Það verður að skilgreina vandamálin og horfast í augu við þau. Erfiður tími er framundan, sem kallar á samstarf allra flokka um lausnir."

Áramótin eru nú liðin hjá með ræðu forsætisráðherra á gamlársdag, viðræðum í Kryddsíld og greinum forystumanna í Morgunblaðinu. Hvað skilur það eftir? Ekkert nema vonbrigði, sérstaklega með forsætisráðherra, sem setti fram margar rangar fullyrðingar um bata, kaupmáttaraukningu, leiðréttingu á skuldum heimila, fjölgun starfa, aukna fjárfestingu og minnkandi vanskil og gjaldþrot! Hinir forystumenn flokkanna sögðu ekkert nýtt í greinum sínum og endurspegluðu rifrildishefð Alþingis í Kryddsíldinni.

Skilgreindu þeir vandamálin?

Hvað á að gera í hrikalegum vanda þjóðarinnar? Síhækkandi skuldir ríkissjóðs, gjaldeyrishöft, eignir gömlu bankanna erlendis og hér heima. Eignir banka, vogunarsjóða, jöklabréf og aðrar eignir sem leita út með allan okkar gjaldeyri, þannig að þjóðargjaldþrot blasir við, sé höftunum sleppt.

Um tuttugu og átta þúsund einstaklingar eru í verulegum greiðsluerfiðleikum og áttatíu þúsund einstaklingar eiga ekkert á bankareikningum sínum. Þeir sem eru á aldrinum 22-42 ára eru með eignastöðu upp á mínus 82 milljarða króna. Getur hagkerfið gengið án eftirspurnar og skattgreiðslna þeirra í framtíðinni? Vandi þeirra sem tóku verðtryggð húsnæðislán, sem hafa hækkað um 450 milljarða frá hruni, og vandi 5.000 heimila, sem geta ekki greitt húsnæðislán sín er alþekktur. Er hann ekki líka þekktur sá mikli mismunur sem er á þeim sem eiga von um 30% leiðréttingu gengislána og hinum sem eru að missa eignir sínar og sjá engan tilgang í að greiða af verðtryggðum lánum áfram? Hefur ekki legið fyrir í tvö ár, að gengislánin voru dæmd ólögmæt af Hæstarétti? Alþingi tók afstöðu með bönkunum gegn fólkinu, en það var einnig dæmt ólöglegt. Bankar bíða enn með útreikninga og vilja fleiri dóma Hæstaréttar.

Hefur ekki verið greint frá staðreyndum um veiðigjaldið, sem hefur ekkert með afkomu hvers fyrirtækis að gera og að óbreyttu mun leggja nær allar minni útgerðir niður og leggja af fiskveiðar, þar sem aflinn er unninn úti á sjó?

Breytinga er þörf

Það verður að skilgreina vandamálin og horfast í augu við þau. Erfiður tími er framundan, sem kallar á samstarf allra flokka um lausnir. Mikla einurð þarf að sýna vogunarsjóðum og afnema heimildir til útgreiðslna á vöxtum lána í gjaldeyri. Móta ber stefnu um „eftirleguskatt“ á allar eignir þeirra eða margra ára bindingu þessa fjár.

Setja ber reglur um að gengi krónunnar myndist í viðskiptum með andvirði inn- og útflutnings, án fjármagnsflutninga. Þeir skekkja ævinlega gengið og valda um leið ójöfnum gangi neysluvísitölu. Setja ber húsnæðislán undir sérstaka vísitölu sem taki breytingum eftir hækkun eða lækkun húsnæðisverðs og bjóða þeim sem eru að missa húsnæði sitt vegna verðtryggðra lána, sem tekin voru eftir 2004, möguleika á að lengja lánið til margra ára með föstum vöxtum.

Breyta ber veiðigjaldinu með hækkun grunngjalds, vegna aðgöngu að þjóðareign. Útgerðir og önnur fyrirtæki í sjávarútvegi greiði tekjuskatt af hagnaði eins og önnur fyrirtæki, sem tryggir afgjald í samræmi við hagnað.

Hvað leggur Sjálfstæðisflokkurinn til um úrlausnir?

Fullreynt virðist að þingmenn flokksins komi fram með tillögur til lausnar á fjárhagsvanda heimilanna í samræmi við samþykkt Landsfundar 2011 og flokksráðsfundar 2012. Því verður að vænta breytinga með nýjum þingmönnum og að sjálfstæðismenn móti skýra stefnu á Landsfundi í febrúar um þau mörgu ágreiningsmál, sem bíða úrlausnar hjá þjóð í miklum vanda.

Höfundur er bóndi í Holti og fyrrverandi sóknarprestur.

Höf.: Halldór Gunnarsson