London. AFP. | 150 ár eru nú liðin frá því að elsta jarðlestakerfi heimsins var opnað, þ.e. jarðlestakerfið í London sem flytur um fjórar milljónir farþega á dag.
Fyrsta brautarspor lestakerfisins var opnað almenningi 10. janúar 1863, um þremur árum eftir að framkvæmdirnar hófust. Langar biðraðir mynduðust á lestarstöðvunum því margir höfðu beðið spenntir eftir því að fá tækifæri til að ferðast með jarðlestunum sem voru gufuknúnar og lýstar með gaslömpum. „Í fyrsta skipti í sögu heimsins geta menn ferðast í notalegum vögnum, með verulegum þægindum, neðar en gas- og vatnsleiðslur borgarinnar... neðar en grafirnar,“ sagði í forystugrein dagblaðsins Daily News á þessum tíma.
„Við fundum ekki neina vonda lykt, fyrir utan þá lykt sem er algeng í göngum. Það er svo hátt til lofts í vögnunum að sex feta maður getur staðið þar uppréttur, með hattinn á höfðinu,“ var haft eftir William Hardman, einum af fyrstu farþegum jarðlestanna.
Á þessum tíma var London fjölmennasta borg heimsins og mikil þörf á því að bæta almenningssamgöngurnar. Jarðlestakerfinu var komið upp til að tengja þrjár lestarstöðvar (Paddington, Euston og King's Cross) við miðborgina.
402 kílómetra löng
Fyrsta brautarsporið, nefnt Metropolitan Railway, var nær fimm kílómetra langt og stöðvarnar voru sjö. Hálfri annarri öld síðar eru brautarsporin alls 402 km löng og lestarstöðvarnar eru 270. Á ári hverju flytja jarðlestirnar 1,1 milljarð farþega.„Það varð lífæð Lundúna,“ segir David Laboso, einn framkvæmdastjóra Transport for London, fyrirtækis sem stjórnar almenningssamgöngukerfi borgarinnar. „Merki jarðlestanna varð að tákni Lundúna,“ segir Oliver Green sem hefur skrifað bók um sögu jarðlestanna.
Jarðlestakerfið tengist mörgum mikilvægum atburðum í sögu borgarinnar. Göng jarðlestakerfisins gegndu t.a.m. mikilvægu hlutverki sem loftvarnabyrgi í síðari heimsstyrjöldinni þegar London varð fyrir árásum þýskra flugvéla. Tugir þúsunda borgarbúa sváfu þá í lestarstöðvunum, stundum hátt í 200.000 manns. Til að mynda leituðu um 177.500 manns athvarfs í jarðlestastöðvunum 27. september 1940.
Lestarstöðvarnar voru einnig notaðar sem spítalar. Hvítar línur voru málaðar á brautarpalla til að aðgreina svæði sem ætluð voru sjúklingum eða fólki sem svaf í lestarstöðvunum.
Sex áratugum síðar, 7. júlí 2005, urðu jarðlestarstöðvarnar sjálfar fyrir árásum þegar tilræðismenn sprengdu sig í loft upp í þremur lestum og einum strætisvagni. 52 biðu bana í sprengingunum, auk tilræðismannanna fjögurra.
Green segir að ef til vill líti ferðamenn ekki lestakerfið sömu augum og borgarbúar sem nota lestirnar á hverjum degi til að ferðast langan veg milli heimilis og vinnustaðar á aðalumferðartíma. „Það er ástar- og haturssamband á milli Lundúnabúa og jarðlestanna,“ segir hann. „Þeir eru alltaf að kvarta yfir þeim en þurfa að nota þær.“
Helstu umkvörtunarefnin eru tafir vegna bilana, sífelldar endurbætur og hátt verð farmiða. Að sögn breska dagblaðsins Telegraph er jarðlestakerfið úr sér gengið vegna þess að síðustu áratugi hafi of lítið fé verið lagt í það til að bæta það.