11. janúar 1897 Leikfélag Reykjavíkur var stofnað í þeim tilgangi að „halda uppi sjónleikjum hér í bænum og jafnframt að þeir að efni og útfærslu verði að öllu betri að meðaltali en áður hefur verið,“ eins og sagði í grein í blaðinu Íslandi.

11. janúar 1897

Leikfélag Reykjavíkur var stofnað í þeim tilgangi að „halda uppi sjónleikjum hér í bænum og jafnframt að þeir að efni og útfærslu verði að öllu betri að meðaltali en áður hefur verið,“ eins og sagði í grein í blaðinu Íslandi. Fyrsta sýningin var þó ekki fyrr en í lok ársins.

11. janúar 1918

Bjarndýr gengu á land í fyrsta sinn þennan frostavetur. Það var í Núpasveit, austan Öxarfjarðar. Næstu daga gengu ísbirnir á land á Melrakkasléttu, í Skagafirði, á Skagaströnd, á Langanesi og í Mjóafirði.

11. janúar 1944

Togarinn Max Pemberton frá Reykjavík fórst undan Snæfellsnesi með allri áhöfn, 29 manns.

11. janúar 1990

Fjörutíu skip fengu 28.400 lestir af loðnu djúpt úti fyrir Austfjörðum. Þetta var mesta veiði á einum sólarhring. Eldra met var tíu ára gamalt.

11. janúar 1993

Dýpsta lægð sem sögur fara af á Norður-Atlantshafi, 910-920 millibör, fór norður með Austurlandi. Röskun varð á samgöngum en litlar skemmdir urðu. Þó brotnuðu 50 rúður í hóteli í Öræfum.

11. janúar 2007

Menntamálaráðherra og rektor Háskóla Íslands undirrituðu fimm ára samning um kennslu og rannsóknir. Fjárveitingar ríkisins til rannsókna áttu að þrefaldast á samningstímanum. „Tímamót í íslenskri skólasögu,“ sagði á forsíðu Fréttablaðsins.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.