Ólöf Þóranna Jóhannsdóttir fæddist í Brúnavík við Borgarfjörð eystra 26. september 1922. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir föstudaginn 14. desember sl.
Hún var ein af 14 börnum hjónanna Bergrúnar Árnadóttur og Jóhanns Helgasonar sem bæði voru frá Borgarfirði eystra og bjuggu þar.
Ólöf stundaði nám við Húsmæðraskólann á Staðarfelli 1942-1943. Hún starfaði hjá dagvistarheimilinu Tjarnarborg í Reykjavík frá 1944-1947 og 1950-1952 og við verslunarstörf í Stykkishólmi 1947-1950. Hún lauk ljósmæðraprófi frá LMSÍ 30.9. 1953 og endurhæfingarnámskeiði LMSÍ haustið 1981. Hún starfaði sem ljósmóðir á Hólmavík 1953-1961 og á sjúkrahúsinu á Hólmavík 1953-1954.
Árið 1961 flutti hún til Reykjavíkur og starfaði nokkur ár á barnaheimilinu Brákarborg og síðan á fæðingardeild Landspítalans þar til hún fór á eftirlaun 1986. Eftir að hún fór á eftirlaun starfaði hún eitt ár á leikskóla, en réð sig síðan á Hjúkrunarheimilið Skjól, þar sem hún starfaði til 1995.
Ólöf giftist hinn 25.12. 1954 Finni Benediktssyni frá Hólmavík, f. 21.5. 1921, d. 5.6. 1997. Þau Ólöf og Finnur eignuðust ekki börn. Barn Ólafar og Hinriks Eiríkssonar verslunarmanns í Reykjavík er Þórhildur Hinriksdóttir, f. 30.3. 1947, maki hennar er Þórður Sigurjónsson, f. 10.10. 1946, þau hafa verið búsett í Lúxemborg í 42 ár. Börn þeirra eru: a) Sigurjón, f. 1969, maki Jóhanna Jakobsdóttir, eiga þau tvo syni. b) Ólöf Dís, f. 1971, maki Birgir Örn Björnsson, eiga þau tvo syni. c) Finnur Dór, f. 1979, d. 2011. d) Harpa Rún, f. 1982, sambýlismaður Romain Buchholtz og á hann einn son.
Ólöf fór snemma að heiman til að vinna fyrir sér en átti miklar rætur á Borgarfirði eystra. Þar er æskuheimilið Ós, í eigu stórfjölskyldunnar, og dvaldi Ólöf þar mikið á sumrin eftir að hún varð ekkja. Hennar aðaláhugamál seinni ár var viðhald Óshússins.
Útför Ólafar fer fram frá Langholtskirkju í dag, 11. janúar 2013, kl. 13.
Þegar maður sest niður og hugsar um Ollu ömmu er bara hægt að brosa. Allt sem við uplifðum með ömmu var skemmtilegt. Hún smitaði alla með léttleika og jákvæðni.
Vinum okkar fannst gaman að heimsækja Ollu ömmu, sitja með henni við eldhúsborðið og hlæja. Við komum líka oft með útlenska vini í heimsókn eða hún kynntist þeim hjá okkur í Lúxemborg. Þeir voru oftast í djúpum samræðum við ömmu. Skipti þar engu máli að hún talaði ekki stakt orð í öðru en íslensku. Hlátur er eins á öllum tungumálum.
Við vorum alltaf jafn hissa hversu margir þekktu hana ömmu. Sama hvar maður var, þá var alltaf einhver sem kom brosandi út að eyrum og faðmaði hana. Hún var ekki fræg og ekkert þekkt í fjölmiðlum, en hún var stórstjarna þar sem hún mætti. Ástæðan var brosið hennar og útgeislun. Hún skóf ekki utan af neinu og var oft svolítið kaldhæðin, en henni var líka sama hvað öðrum fannst. En mest gat hún samt hlegið að sjálfri sér. Hún tók sig ekki alvarlega og talaði aldrei um það sem hún hafði áorkað á sinni ævi. Hún bara vann vinnuna sína, var góð og hjálpaði ef hún gat og svo naut hún lífsins og skemmti sér.
Hún var mjög heiðarleg kona, en svolítið óhlýðin. Hún sagði bara já og gerði svo bara það sem henni datt í hug.
Þegar við sitjum hér og hugsum um Ollu ömmu er Finnur Dór bróðir okkar alltaf með. Enda voru þau tvö alltaf mjög góðir vinir og hlógu mikið saman.
Það verða miklir fagnaðarfundir þarna uppi, þegar Finnur og amma sameinast á ný.
Elsku mamma. Hún amma var rosalega stolt af dóttur sinni og dáðist alltaf að því hvað hún er dugleg, klár og góð manneskja. Við munum halda minningu um hana lifandi og segja börnunum okkar margar langömmusögur.
Sigurjón, Ólöf Dís
og Harpa Rún.
Eiginlega mátti setja samasemmerki á milli Ljósheima 6 og Reykjavíkur í huga okkar á barns- og unglingsárunum. Í árlegum Reykjavíkurferðum á haustin var gist hjá Ollu og Finni og hjá þeim fengum við afar hlýjar móttökur. Á sumrin komu þau norður til Hólmavíkur og var það alltaf tilhlökkunarefni. Þegar þau komu þá gistu þau gjarnan í litlum bústað í Kálfanesi rétt fyrir utan Hólmavík. Við komu þeirra breyttist þetta litla kot í yndislegan samverustað. Í Kálfanesi nutu þau tengslanna við náttúruna og gamlar æskuslóðir Finns.
Olla tók á móti okkur systkinunum þegar við komum í heiminn. Alla tíð var mikil samheldni innan fjölskyldunnar, farið var í margar skemmtilegar ferðir og reglulega komið saman. Olla var létt í lund og hrókur alls fagnaðar á þessum stundum. Okkur þótti mjög vænt um að hún skyldi geta tekið þátt í litlu ættarmóti í september sl. skömmu áður en hún hélt hún upp á 90 ára afmælið sitt.
Við kveðjum Ollu með söknuði en vitum að Finnur hefur breitt út faðminn og tekið vel á móti henni.
Guðrún, Sigrún
og Ólafur Reykdal.
Olla var ein af okkar stóru fjölskyldu, en við urðum 14 systkinin og komust 12 þeirra á legg. Flest vorum við 12 systkinin í heimili samtímis í litla húsinu okkar á Ósi, sem stóð fyrir neðan þorpið Bakkagerði í Borgarfirði eystra, og var þar oft þröng á þingi, en samkomlagið var gott og fundum við ekki svo mikið fyrir þrengslunum. Eldri systkini mín fóru snemma að heiman, eða þegar þau gátu farið vinna fyrir sér, og þar sem Olla var átta árum eldri en ég vorum við lítið saman í bernsku. Þó að Olla ætti ekki lengi heima í gamla húsinu okkar að Ósi í uppvextinum þá tók hún sérstöku ástfóstri við þann stað og eiginlega allt sem tilheyrði næsta umhverfi þess. Þegar hætt var fastri búsetu á Ósi tókum við systkinin við eignarhaldi á því og stofnuðum félag um það til þess annast rekstur þess og viðhald. Þá var Olla kosin formaður félagsins og var það til margra ára og var driffjöðrin í því að láta viðhalda húsinu svo vel sem kostur var á.
Olla systir var alltaf svolítið sérstök og skar sig úr fjöldanum sökum glaðværðrar og kröftugrar framkomu hvar sem hún fór, hvort sem var í leik eða starfi. Það var sjaldan ládeyða í kringum hana og var þá sama hvaða verk þurfti að leysa af hendi, stíga dansinn eða skemmta sér rækilega. Hún var ákaflega nátengd minni fjölskyldu og var í miklu uppáhaldi hjá mínum börnum. Hún var ómissandi í okkar fjölskylduboðum þar sem hún var hrókur alls fagnaðar. Þar var gjarna mikill glaumur og gleði og mikið sungið. Þá var nú ekki ónýtt að hafa hann Finn, eiginmann hennar, með í hópnum. Hann var sérlega góður söngmaður með hreina og mjúka bassarödd og kunni ósköpin öll af alþýðusöngvum, fallegum ljóðum og lögum. Þá má nú aldeilis minnast þeirra dýrðardaga þegar við Bryndís vorum saman með þeim í Lúxemborg. Það voru ógleymanlegar dýrðarstundir. Við minnumst þess oft hvað hún var frábær og er oft minnst á það innan fjölskyldunnar, þegar stórfjölskyldan var að halda eitt af okkar niðjamótum, sem haldin eru á fimm ára fresti heima á Borgarfirði. Í þetta skiptið vorum við með tjaldbúðir okkar fyrir innan þorpið á svonefndum Brandsbölum. Þá gengu margir seint til hvílu það kvöld og trúlega ekki langt í sólarupprás. Þá var með því allra síðasta sem heyrðist sönglið í Ollu systur þar sem hún kvað við raust eitt af sínum uppáhaldslögum, „Sævar að sölum“, og viti menn, fyrsta lífsmark sem vart varð við um morguninn var raulið í Ollu þar sem hún sat framan við tjaldið sitt og var farin að baka pönnukökur á prímusnum sínum.
Ég flyt Tótu og Dodda og allri þeirra fjölskyldu hugheilar samúðarkveðjur frá systkinunum frá Ósi og þeirra fjölskyldum og við biðjum þeim öllum blessunar um ókomin ár. Ég bið góðan Guð að leiða og blessa hana Ollu systur mína á sinni hinstu för og ég veit að hann lýsir henni leiðina til endurfunda við þá sem á undan eru farnir og voru henni kærir. Hvíli hún í friði.
Jón Þór Jóhannsson.
Nú hefir þú fengið hvíldina, var það mjög friðsælt. Enda ekki í þínum anda að láta sitja yfir þér, hvað þá að hafa fyrir þér og alls ekki að láta nudda tærnar.
Þú hafðir verið aðeins 9 mánuði á stofnun eða sem samsvarar einni meðgöngu. Ég held að þú sért mjög fegin að hafa ekki þurft að vera lengur upp á aðra komin. Bjóst alltaf ein í Ljósheimunum eftir að Finnur dó og undir þér vel þar, enda heimilið þitt yndislegt. Þú reyndist mér sem móðir í yfir 40 ár og hefur verið ómetanlegt að eiga þig að. Þú varst alltaf til staðar þegar á þurfti að halda og var ég ómöguleg ef þú varst lengi í burtu.
Síðustu ár höfðum við mikið samband og töluðum saman í síma nær daglega, en aldrei lengi, það var ekki þinn stíll, bara taka stöðuna. Ég kom oft við eftir vinnu og var þá alltaf boðið upp á kaffi, hafrakex, salat og osta.
Ein af ástæðunum fyrir því hve lengi þú gast verið ein heima var aðstoð Rögnu frænku okkar sem sá einstaklega vel um þig, einnig var ómetanleg hjálp frá nágrannakonum þínum þeim Guðlaugu og Sólveigu (Gullu og Sollu) enda fylgdust þær mjög vel með að allt væri í lagi. Gaman fannst þér að fá gesti, Olla mín, og var oft gestkvæmt í Ljósheimunum, ef ekki var boðið upp á kaffi var gjarnan boðið upp á líkjör, ekkert bölvað sérrí eins og þú sagðir sjálf.
Mikið held ég að jólin hafi verið skemmtileg hjá ykkur þarna á himnum, Finnarnir þínir leikið á als oddi að hafa fengið nýjan skemmtikraft, ég held að það hafi verið dansað í kringum jólatréð og sungið smá og hún Freyja vinkona þín sem fór fyrir ekki svo löngu verið glöð að hitta þig, Olla mín. Allir sem þekktu þig minnast þín með sérstakri hlýju og söknuði, þú varst slíkur gleðigjafi. Nú verður auður stóll hjá okkur í Jakaselinu á gamlárskvöld, en þín minnst sérstaklega með því að skála í líkjör.
Elsku Olla mín, ég ætla ekki að segja mikið meira, gæti rifjað upp ýmislegt skemmtilegt en þér hefði fundist það hinn mesti óþarfi. Ef eitthvað bjátaði á eða þú vildir að hlutirnir gengju eftir fórstu upp í Hallgrímskirkju og hést á Hallgrím eins og þú sagðir. Þú vildir að karlakór myndi syngja yfir þér, sagðist ekki þola kvennakóra og þá ósk þína færðu að sjálfsögðu uppfyllta.
Þín einlæg frænka og systurdóttir,
Rósa Guðný.
Þá rifjast upp minningarnar. Fyrir rúmri hálfri öld fluttum við hjónin í nýja blokk við Ljósheima 6 á 5. hæð. Í íbúð á móti okkur komu yndisleg hjón með dóttur sína sem voru að flytja til Reykjavíkur frá Hólmavík. Það voru þau Finnur, Ólöf og Þórhildur. Með okkur tókst góður vinskapur sem aldrei bar skugga á. Við kynntumst fjölskyldum þeirra og áttum margar góðar stundir með þeim.
Olla, eins og hún var ætíð kölluð, var mér meira en nágranni, þarna eignaðist ég góða vinkonu fyrir lífið. Í mínum huga var hún ljósmóðirin sem hafði þörf fyrir að hlúa að lífinu, alltaf tilbúin að rétta fram hjálparhönd. Hún bar mikla umhyggju fyrir mér og var næm fyrir því þegar ég þurfti á hjálp að halda. Fyrir það er ég henni ævinlega þakklát.
Ef ég á að lýsa henni með orðum koma upp orðin hreinskilin, ákveðin, heiðarleg, gefandi og alltaf var stutt í brosið hennar. Hún var alltaf á miklum hraða og kom til dyranna eins og hún var klædd. Hún kallaði ekki allt ömmu sína og kom oft labbandi til mín eftir að ég flutti á Langholtsveginn, og oft var hún að koma úr sundi og var þá búin að vinna heilan vinnudag.
Hún var þakklát fyrir það að hafa góða heilsu og var dugleg að halda henni við með sínum dugnaði og krafti. Eftir að hún hætti að vinna gekk hún í Kvenfélag Langholtskirkju. Þar náðum við saman aftur og áttum okkar hugljúfu stundir.
Hún hlúði vel að fjölskyldu sinni og dótturbörnin hennar voru hennar guðsgjafir sem gáfu henni tilgang í lífinu. Þau fengu alla hennar ástúð og umhyggju. Þegar sorg var í lífi hennar tók hún henni með miklu æðruleysi.
Þegar maður reynir að lýsa mannkostum látinnar vinkonu verða öll orð máttlaus og lítils megnug, en minningarnar koma upp og varðveitast.
Elsku Tóta mín og fjölskylda, mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning hennar.
Súsanna Kristinsdóttir.
Láttu nú sanna blessunar brunna
blómlega renna á móti mér,
svo sæluna sanna, ég fái að finna
og fögnuð himnanna, þá ævin þver.
(Höf. ókunnur)
Þá er hún elsku Olla farin frá okkur. Ólöf Jóhannsdóttir var af flestum kölluð Olla og hún var yndisleg og hún var einstök. Hún var skólasystir mín frá Ljósmæðraskólanum, elst í okkar 12 kvenna hópi, en duglegust að hóa okkur skólasystrunum saman á stórafmælum sem og oftar. Við vorum 11 sem útskrifuðumst haustið 1953 en því miður er farið að fækka verulega í þeim hópi. Síðastliðið haust kvaddi Freyja okkur, en Olla og Freyja áttu það til að dansa saman við góð tækifæri.
Hópurinn allur var mjög samstilltur og við nutum þess að hittast og jafnvel ferðast. Til dæmis, þegar 40 ár voru liðin frá útskrift, var það Olla sem sá alfarið um að við færum saman til Lúxemborgar, til Þórhildar dóttur hennar og fjölskyldu. Svo var það dótturdóttirin hún Olla Dís sem keyrði okkur, hvert sem við fórum, til dæmis til Þýskalands þar sem gist var eina nótt. Að vísu komust ekki nema 7 af okkur í þessa ferð, því miður, því þetta var svo gaman.
Það hefði verið minna um samverustundir hjá okkur skólasystrunum ef Ollu hefði ekki notið við og hún var búin að tala um það í fyrra að við yrðum að koma saman árið 2013, á 60 ára útskriftinni. Það verður örugglega ekki, fyrst Olla er ekki til að minna okkur á það.
Skólasysturnar Elín, Herdís, Steinunn og Sigrún þakka Ollu fyrir alla þá góðu hluti sem hún gerði fyrir okkur og einnig Margrét, sem var með okkur í byrjun í skólanum en varð að hætta vegna veikinda og lauk sínu námi ári seinna.
Það var alltaf fjör í kringum Ollu og glatt á hjalla hjá henni og Finni þegar þau buðu okkur heim til sín. Olla náði þeim áfanga sl. haust að ná 90 ára aldri. Hún var komin í öruggt skjól og leið vel á Eir. Hún þurfti nánast ekkert að liggja rúmföst áður en kallið kom hægt og hljótt.
Við hjónin minnumst Ollu sem gleðigjafa og Sveinn þakkar líka fyrir alla samveru og ekki síst dansana. Við sendum þér, Þórhildur, allri þinni fjölskyldu og öllum hinum stóra frændgarði innilegar samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Ólafar Jóhannsdóttur.
Ása Marinósdóttir.
Ég langömmu á sem að létt er
í lund,
hún heitir Olla og fer oft
í sund,
hún kann ekki að prjóna, en
heklar samt vel
og pönnukökur bakar
já það elska ég.
Þórður Ingi, Ari, Mathis, Daniel Snær og Björn Hinrik.