Berglind fæddist í Reykjavík en ólst upp í Kópavogi. Hún var í Digranesskóla, lauk stúdentsprófi frá MK 1993, lærði tanntækni við FÁ og lauk þaðan prófum 1995. Þá lauk hún 1. stigs kennaraprófi í hatha-jóga 2002.
Berglind vann lengst af með námi. Á unglingsárunum stundaði hún verslunarstörf í Hagkaupum í Skeifunni, við bakaríið Kornið í Kópavogi, vann í matvöruverslun og með útiflokki hjá Loftorku í Hafnarfirði við ýmiss konar jarðvegsvinnu, lagnavinnu, hellulagnir og jarðvegsundirbúning fyrir malbikun.
Eftir útskrift sem tanntæknir var Berglind tanntæknir á Egilsstöðum hjá Þóri Schiöth tannlækni í eitt ár og var síðan tanntæknir með hléum vegna barneigna og uppeldis, m.a. hjá tannlæknunum Þórarni Sigþórssyni og Sæmundi Pálssyni. Hún starfar nú aðra hverja viku hjá Þóri Schiöth í Reykjavík.
Berglind var prestsfrú á Skagaströnd 2001-2006, í Ólafsvík 2006-2010 og hefur verið prestsfrú á Lækjarbakka við Hvammstanga frá 2010. Hún var auk þess kennari við Grunnskólann á Skagaströnd er fjölskyldan bjó þar og kennari við Grunnskóla Snæfellsbæjar. Á Hvammstanga starfaði Berglind hjá Fæðingarorlofssjóði 2010-2012.
Berglind söng á árum áður með Kór Menntaskólans í Kópavogi og með Hjallakirkjukór, söng með kirkjukórunum á Skagaströnd og í Ólafsvík eftir því sem þau hjón gátu komið því við og syngur nú með kirkjukórnum á Hvammstanga. Þá starfar hún og prjónar með Prjónó, sem eru gallvaskar prjónakonur á Hvammstanga.
Jóga og kristileg íhugun
Berglind ólst upp við það að faðir hennar stundaði jógaæfingar um árabil. Hún fór því sjálf að æfa jóga og öðlaðist síðan kennsluréttindi í hatha-jóga. Hún hefur nú boðið upp á hatha-jógaæfingar og kristilega íhugun í safnaðarheimilinu á Hvammstanga í eitt ár og fengið við því góð viðbrögð.„Hatha-jógaæfingar snúast í raun um ýmsar jógastöður, öndunaræfingar og slökun. Jafnframt þessum æfingum ástundum við kristilega íhugun og endum hvern fund á fallegri bæn.
Ég hef stjórnað vikulegum fundum af þessu tagi nú í eitt ár og fengið mjög góð viðbrögð við því. Það hafa töluvert margir komið á þessar æfingar og síðan er fastur hópur sem mætir í hvert skipti.“
Magnús, eiginmaður Berglindar, er frá Staðarbakka í Miðfirði en þar byggðu þau hjónin sér hús á árunum 2004-2007 og eru þar búsett í dag.
Auk söngsins og áhuga á jóga blundar í Berglindi mikil sveitamanneskja.
„Ég er nú reyndar ekki alin upp í sveit en ég hef verið alsæl hér á landsbyggðinni og hef mikinn áhuga á sauðfjárbúskapnum hér, sauðburðinum á vorin og réttunum á haustin.
Síðan eigum við hjónin hesta og erum svona í rólegheitum að koma okkur upp góðum stofni.“
Fjölskylda
Eiginmaður Berglindar er Magnús Magnússon, f. 9.12. 1972, sóknarprestur Breiðabólstaðarprestakalls. Hann er sonur Magnúsar Guðmundssonar, fyrrv. bónda á Staðarbakka, og Guðrúnar Helgu Jónsdóttur, húsfreyju þar, sem er látin.Börn Berglindar og Magnúsar eru Guðrún Helga, f. 15.8. 1996, nemi við FNV á Sauðárkróki; Rannveig Erla, f. 4.7. 2000, og Guðmundur Grétar, f. 6.1. 2004.
Systkini Berglindar eru Áslaug, f. 10.5. 1957, hjúkrunarfræðingur í Noregi; Rannveig, f. 31.10. 1959, matráður í Kópavogi; Þorkell, f. 14.6. 1961, vélvirki í Reykjavík; Hilmar, f. 18.8. 1963, verktaki í Kópavogi; Heimir, f. 2.4. 1965, pípulagningameistari í Kópavogi; Gunnar, f. 12.10. 1966, verktaki í Kópavogi; Smári, f. 10.4. 1969, skrúðgarðyrkjumeistari í Kópavogi, og Birgir, f. 4.7. 1971, starfrækir Barkasuðu Guðmundar með föður sínum.
Foreldrar Berglindar eru Guðmundur Þorkelsson, f. 10.10. 1935, plötu- og ketilsmiður, og Erla Sæunn Guðmundsdóttir, f. 7.12. 1935, húsfreyja.