„Þetta er sá sjúkdómur sem dregur flesta háfjallamenn til dauða. Ég fékk strax súrefni og það var sprautað í mig sterum, ég fékk líka eina Viagratöflu til að koma blóðinu af stað. Þetta er víst eitthvert háfjallabragð sem þeir nota. Síðan var kallað á þyrlu vegna bráðatilfellis og ég fluttur umsvifalaust niður,“ segir Andri Kristinsson, viðskiptafræðinemi við Stanford-háskóla og þaulvanur fjallamaður, sem gekk ásamt hópi Bandaríkjamanna á hæsta fjall Ameríku, Aconcagua í Argentínu, nokkru fyrir jól.
Fjallið er um 7.000 metra hátt en í 4.300 m hæð fékk Andri háfjallalungnabjúg. Hann minnir óvant fólk á að Aconcagua sé varasamt og dauðsföll í hlíðum þess fleiri en á nokkrum öðrum þekktum fjöllum. Nokkrum dögum eftir það sem henti Andra dóu tveir menn í fjallinu eftir að hafa veikst af háfjallalungnabjúg.
Tómas Guðbjartsson læknir tekur undir varnaðarorð Andra en í Morgunblaðinu sl. helgi greindi Halla Vilhjálmsdóttir leikkona frá ferð sinni á sama fjall, en hún hafði enga reynslu í fjallaklifri eða naut leiðsagnar. 16