Keppnisstaðir
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
Þrátt fyrir að hafa sextán sinnum tekið þátt í heimsmeistaramóti karla í handknattleik og átt eitt allra sterkasta handknattleikslandslið Evrópu síðustu áratugina hafa Spánverjar aldrei áður verið gestgjafar heimsmeistaramóts karla í handknattleik. Þeir eru vel að því komnir að halda mótið sem fram fer í skugga mikillar efnahagskreppu í landinu. Kreppan kemur þó ekki í veg fyrir að Spánverjar bjóði upp á góð keppnishús á öllum keppnisstöðum mótsins. Nóg er af íþróttahöllum á Spáni þar sem víða er leikinn handknattleikur en einnig og ekki síður körfuknattleikur enda landið eitt helsta vígi þeirrar skemmtilegu boltaíþróttar í Evrópu. Rétt er að líta aðeins nánar á keppnisstaðina og hallirnar sem leikið verður í.
A-riðill – Granollers
Leikið verður í Palacio de los deportes de Granollers, íþróttahöll sem byggð var árið 1991 og rúmar 5.200 áhorfendur í sæti. Rúmlega 60.000 manns búa í Granollers sem er nærri Barcelona, höfuðborg Katalóníuhéraðs. Þar þekkja menn vel til handknattleiks og bærinn hefur lengi átt handknattleikslið í efstu deild karla.Íþróttahöllin sem leikið verður í var byggð í aðdraganda Ólympíuleikanna sem fram fóru í Barcelona fyrir 20 árum. Handknattleikskeppni leikanna fór nær öll fram í Granollers og fyrir vikið er bærinn stundum nefndur höfuðstaður handknattleiks í Katalóníu. Hér leika Argentína, Brasilía, Frakkland, Svartfjallaland, Túnis og Þýskaland.
B-riðill – Sevilla
Leikið verður í Palacio de deportes San Pablo-íþróttahöllinni sem rúmar 9.500 áhorfendur. Hún var byggð 1988 og mikið notuð fyrir körfuknattleik.Handknattleikur er ekki vinsælasta íþróttin í Sevilla, sem er höfuðstaður Andalúsíu, þar sem knattspyrna ræður ríkjum í íþróttalífinu og fljótið Guadalquivir sker borgina í tvo hluta.
Sevilla hefur verið vettvangur nokkurra íþróttaviðburða á síðustu árum. Heimsmeistaramótið í frjálsíþróttum var haldið í borginni sumarið 1999 og úrslitaleikir Evrópukeppni bikarhafa fóru hér fram árið 2003. Leikið var í Sevilla í undanúrslitum á HM í knattspyrnu 1982 og úrslitaleikur Evrópukeppni meistaraliða fór fram á borgarleikvanginum fyrir 26 árum. Rúmlega 700.000 manns búa í borginni og sé næsta nágrenni tekið með í reikninginn eru íbúar um 1,2 milljónir.
Hér leika Danmörk, Ísland, Katar, Makedónía, Síle og Rússland.
C-riðill – Zaragoza
Zaragoza er í norðvesturhluta Spánar, rúmlega 300 km vestur af Barcelona. Þar búa nærri 800.000 manns.Leikið verður í íþróttahöll sem nefnist Pabellón Príncipe Felipe og rúmar um 11 þúsund manns í sæti. Hún var byggð fyrir 22 árum.
Mikill íþróttaáhugi er í borginni en vinsælustu íþróttagreinarnar eru knattspyrna og körfuknattleikur. M.a. leikur landsliðsmaðurinn Jón Arnór Stefánsson með körfuknattleiksliði borgarinnar um þessar mundir.
Leikið hefur verið á heimsmeistaramóti í körfuknattleik í Zaragoza auk þess sem hluti af körfuknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Barcelona fór fram í borginni. Einnig fór hluti af Evrópumóti í nútímafimleikum fram í borginni fyrir rúmum áratug.
Handknattleiksliðið Aragón, sem leikur í efstu deild, er með bækistöðvar í borginni.
Hér leika Hvíta Rússland, Pólland, Sádi-Arabía, Serbía, Suður-Kórea og Slóvenía.
D-riðill – Madrid
Leikið verður í Caja Mágica-íþróttahöllinni í Madrídarborg eftir að Madrid Arena var lokað í nóvember eftir að fjögur ungmenni létust þar á hrekkjavökuhátíð. Þá hófst rannsókn á öryggismálum hallarinnar sem enn er ekki lokið. Í skyndi ákvað mótsstjórn að flytja alla kappleiki frá Madrid Arena til Caja Mágica sem einnig er glæsilegt mannvirki sem tekið var í notkun fyrir fjórum árum og rúmar 11 þúsund manns í sæti.Hér leika Alsír, Ástralía, Egyptaland, Króatía, Ungverjaland og Spánn.
Barcelona
Helmingur leikja í 16- og 8-liða úrslitum fer fram í Barcelona en hinn helmingurinn í Zaragoza. Undanúrslit og úrslitaleikirnir verða einnig háðir í Barcelona. Leikið verður í Palau Sant Jordi-íþróttahöllinni glæsilegu þar sem handknattleiks- og körfuknattleikslið Barcelona leika heimaleiki sína. Palau Sant Jordi-höllin, sem byggð var 1990, rúmar 16.500 manns í sæti. Hún er hluti af ólympíusvæðinu sem reist var yfir Ólympíuleikana í Barcelona 1992. Á leikunum var keppt í fimleikum og eins voru úrslitaleikir í blaki og handknattleik háðir í íþróttahöllinni sem er öll hin glæsilegasta. Á næsta ári verður leikið í höllinni á heimsmeistaramótinu í körfuknattleik.
Guadalajara
Smábær norðaustur af Madrid þar sem leikið verður um forsetabikarinn en um hann keppa þau lið sem hafna í tveimur neðstu sætum riðlakeppninnar sem leikin verður í Barcelona, Madrid, Sevilla og Zaragoza. Liðlega 80.000 íbúar eru í Guadalajara.Palacio Multiusos de Guadalajara Aguas Vivas-íþróttahölin, þar sem leikið verður, rúmar 5.500 áhorfendur í sæti og var vígð fyrir rúmum þremur árum.