Nýsköpun „Ég hef áhuga á að fjárfesta í fleiri nýsköpunarfyrirtækjum. Það er skemmtilegra en að fjárfesta í fasteignum,“ segir Jón S. von Tetzchner.
Nýsköpun „Ég hef áhuga á að fjárfesta í fleiri nýsköpunarfyrirtækjum. Það er skemmtilegra en að fjárfesta í fasteignum,“ segir Jón S. von Tetzchner. — Morgunblaðið/Þorkell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Jón S. von Tetzchner, annar stofnandi norska hugbúnaðarfyrirtækisins Opera, hefur komið með 1,1 milljarð króna til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans.

Baksvið

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Jón S. von Tetzchner, annar stofnandi norska hugbúnaðarfyrirtækisins Opera, hefur komið með 1,1 milljarð króna til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans. „Ég hef mikla trú á Íslandi,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið. Hann hefur fjórum sinnum farið í gegnum fjárfestingarleiðina. „Það er ekki enn búið að fjárfesta fyrir alla þessa fjármuni. En það er gott að hafa þá til reiðu því ég hef trú á því að álitleg fjárfestingartækifæri finnist.“

Hann hefur fjárfest í nokkrum atvinnufasteignum og tveimur tölvufyrirtækjum hér á landi: OZ, sem hefur þróað nýja aðferðafræði við að dreifa sjónvarpsútsendingu í háskerpu á netinu, og Íslenskum vefverslunum. Auk þess hefur hann fjárfest í nýsköpunarfyrirtæki í Noregi, I want to know, sem framleiðir forrit fyrir snjallsíma sem kennir stærðfræði á skemmtilegan máta. Hann á enn hlut í Opera.

Sumarið 2011 var tilkynnt að Jón væri á förum frá Opera, en hann var þá forstjóri fyrirtækisins. Í kjölfar breyttra aðstæðna ákvað hann að flytja til Boston í sumar. Hann segist ekki hafa farið að sinna fjárfestingum fyrr en í fyrra og að hálft ár sé síðan hann setti einhvern kraft í þá vinnu. „Ég hef fjárfest í þremur fyrirtækjum og nokkrum fasteignum. Það er ágætis byrjun,“ bendir hann á.

„Ég hef áhuga á að fjárfesta í fleiri nýsköpunarfyrirtækjum. Það er skemmtilegra en að fjárfesta í fasteignum,“ segir hann og horfir til fyrirtækja sem hafi metnað til að vaxa og bjóða vörur og þjónustu á erlendum mörkuðum. Hann hafi þekkingu á slíku og gæti lagt sitt af mörkum. Jón veltir því fyrir sér hvort hann eigi að stofna fyrirtæki eða láta sér nægja að fjárfesta og láta gott af sér leiða með þeim hætti. Það sé stór ákvörðun því það fari mikill tími í að reka fyrirtæki. En það hafi tekið hann tíma að venjast breyttum takti í lífinu eftir að hann fór að starfa sem fjárfestir í stað þess að reka fyrirtæki sem sé nánast sólarhrings vinna.

„Að því sögðu þykir mér afskaplega gaman að vinna með fyrirtækjunum sem ég hef fjárfest í.“

Fjárfestingarleið Seðlabankans gengur út á að fjárfestar komi með erlendan gjaldeyri til landsins, skipti honum í krónur og fjárfesti hér til lengri tíma, en gulrótin fyrir fjármagnseigendur er að krónurnar eru um 20% ódýrari en ef þær hefðu verið keyptar með hefðbundnum hætti. Þessi leið er liður í því að reyna að leysa hinn svokallaða aflandskrónuvanda, svo hægt sé að aflétta gjaldeyrishöftunum.

Synti næstum frá Noregi til Bandaríkjanna
» Jón lýsti því yfir árið 2005 að ef fjöldi niðurhala nýs netvafra, Opera 8, næði 1 milljón á fyrstu fjórum dögunum, myndi hann synda frá Noregi til Bandaríkjanna og aðeins koma við á Íslandi til að drekka kakóbolla hjá móður sinni.
» Hann stakk sér til sunds en komst ekki alla leið til Bandaríkjanna. Enda var um að ræða skemmtilega auglýsingabrellu.
» Jón flutti tvítugur til Noregs. Hann flutti í sumar til Boston.