Á vettvangi Togarinn Jón Baldvinsson strandaði við Reykjanes 29. mars 1955. 42 voru um borð og björguðust allir. Sverrir Þórðarson fór á vettvang fyrir blaðið og sést hann hér í forgrunni.
Á vettvangi Togarinn Jón Baldvinsson strandaði við Reykjanes 29. mars 1955. 42 voru um borð og björguðust allir. Sverrir Þórðarson fór á vettvang fyrir blaðið og sést hann hér í forgrunni. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Sverrir Þórðarson fæddist á Kleppi í Reykjavík 29. mars 1922. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli að morgni mánudagsins 7. janúar.

Foreldrar hans voru Ellen Johanne Sveinsson, fædd Kaaber, f. 9. september 1888, d. 24. desember 1974, og Þórður Sveinsson, prófessor og yfirlæknir á Kleppi, f. 20. desember 1874, d. 21. nóvember 1946. Sverrir var yngstur sjö systkina. Þau voru: Hörður, lögfræðingur og sparisjóðsstjóri SPRON, f. 11. desember 1909, d. 6. desember 1975; Úlfar, augnlæknir og borgarfulltrúi í Reykjavík, f. 2. ágúst 1911, d. 28. febrúar 2002; Sveinn, dr. rer.nat., skólameistari á Laugarvatni og síðar prófessor í Kanada, f. 13. janúar 1913, d. 13. mars 2007; Nína, húsmóðir í Reykjavík, f. 27. janúar 1915, d. 25. júlí 2004; Agnar, rithöfundur, f. 11. september 1917, d. 12. ágúst 2006; Gunnlaugur, hæstaréttarlögmaður, f. 14. apríl 1919, d. 20. maí 1998.

Sverrir kvæntist árið 1946 Petru G. Ásgeirsdóttur, f. 25. október 1924, d. 25. febrúar 1986. Petra var yngsta dóttir Ásgeirs Jónassonar skipstjóra og konu hans, Guðrúnar Gísladóttur. Þau Sverrir og Petra eignuðust þrjú börn: 1) Ása Steinunn, starfsmaður Morgunblaðsins, f. 19. júlí 1950, d. 3. ágúst 1984. 2) Þórður, augnlæknir í Reykjavík, f. 31. desember 1954. Eiginkona hans er Arnfríður Ólafsdóttir, sálfræðingur. Börn þeirra eru Ólafur Arnar, sálfræðingur, og Ása Þórhildur, lögfræðingur. 3) Ásgeir, blaðamaður á Morgunblaðinu um rúmlega tuttugu ára skeið og núverandi starfsmaður embættis ríkislögreglustjóra, f. 7. janúar 1960. Eiginkona hans er Guðrún H. Guðmundsdóttir, kennari. Sonur þeirra er Halldór Armand, lögfræðingur.

Sverrir nam rafvirkjun áður en hann gerðist blaðamaður á Morgunblaðinu árið 1943. Þar vann hann til ársloka 1992 er hann lét af störfum sökum aldurs. Sverrir var jafnframt um langt skeið fréttaritari norrænna fjölmiðla hér á landi.

Útför Sverris Þórðarsonar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, föstudaginn 11. janúar 2013, og hefst athöfnin klukkan 15.

Ég þurfti að hringja hjá mömmu fyrir rúmum 20 árum. Um leið og ég tók upp tólið fann ég að það var kominn herramaður á heimilið – það var áður ókunnur ilmur af rakspíra af símtólinu og mamma varð feimin. Sverrir og mamma höfðu þá tekið upp gömul kynni eftir að þau voru bæði búin að missa maka sína. Þessi kynni urðu að frábærum vinskap sem hélst óslitinn síðan.

Sverrir varð ekki bara vinur mömmu heldur okkar hinna í fjölskyldunni líka. Hann varð fljótt aufúsugestur í öllum fjölskylduboðum og uppákomum öll þessi ár. Allir vildu hafa Sverri með, enda var hann ekki bara skemmtilegur heldur einnig hlýlegur, tillitssamur, ákaflega áhugasamur um menn og málefni og einstaklega hjálpfús.

Hann var fallegur maður, hár og grannur með sitt hvíta þykka hár og sólbrúnu húð. Hann var svo hraustlegur. Sverrir kom eins og stormsveipur inn í líf mömmu og þau gerðu svo margt saman sem ég veit að mamma, sú heimakæra kona, hefði aldrei gert án hans.

Þau fóru í leikhús, á tónleika og í ýmis ferðalög á framandi slóðir. Með mömmu hóf Sverrir að spila golf og hann tók sömu delluna og hún með hvelli. Saman fóru þessir tveir einstaklega spræku eftirlaunaþegar í fjölda golfferða til útlanda.

Auðvitað spiluðu þau svo hér á landi alveg frá opnun vertíðar til loka og oft heyrði ég að Sverrir væri að spila á miðjum vetri ásamt öðrum kappsömum öldungum sem var alveg sama þó að vellirnir væru lokaðir og vindurinn blési að norðan. Sverrir og mamma voru bæði fædd í hrútsmerkinu og þurftu stundum að stangast á. Sverrir var sá sem gaf eftir – var diplómatinn og séntilmaðurinn sem gerði allt fyrir mömmu.

Við mamma áttum notalega stund með honum á Skjóli nú síðast á Þorláksmessu. En þegar næst átti að heimsækja var hann orðinn svo lasburða að við létum þar við sitja. Ég held að það hafi ekki farið framhjá neinum að Sverrir átti erfitt með að sætta sig við að vera ekki lengur sjálfs síns herra á Suðurgötunni. Nú er hann eflaust kominn í mjúka gönguskó og fallegu sportlegu fötin sín í góðan göngutúr og jafnvel með hundinn sinn með sér. Með þessum fátæklegu orðum eru þér, kæri vinur, Sverrir Þórðarsonur, færðar síðustu kveðjur og þakkir fyrir samfylgdina frá Sigríði Flygenring, börnum hennar, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Okkur þótti öllum vænt um þig og þín verður minnst með virðingu og hlýju og með brosi á vör. Innilegar samúðarkveðjur til sona Sverris og fjölskyldna þeirra.

Bryndís S.

Guðmundsdóttir.

Einstakt ljúfmenni, einstakt prúðmenni. Þessi orð koma fyrst upp í hugann er ég hugsa til heiðursmannsins Sverris Þórðarsonar.

Rúmir þrír áratugir eru liðnir frá því ég sá hann fyrst – glaðlegan, léttstígan mann með hund í bandi, útitekinn, hárið mikið og hvítt og hvít lopapeysan með færeysku mynstri. Tveir vinir í sinni daglegu göngu á leið út í Öskjuhlíð.

Á svipuðum tíma lágu leiðir okkar Ásgeirs, sonar hans, saman og ég var kynnt fyrir göngugarpinum glaðlega og hans góðu konu, Petru, sem þá bjuggu á Þórsgötu.

Hann var alltaf á fullu gasi og vinnudagur blaðamannsins krefjandi og langur. Heilsubótarganga þeirra vina nær alltaf tvisvar á dag á meðan hundurinn hafði heilsu til, í mat með bræðrunum hjá Nínu systur, snöggt innlit til sonar, kaffibolli, stutt spjall og svo rokinn til annarra verka.

Eftir að Sverrir missti eiginkonu sína lagðist hann í ferðalög – sannkallaðar ævintýraferðir á framandi slóðir – Egyptaland, Nepal, Perú. Í þessum ferðum kynntist Sverrir litríku og skemmtilegu fólki hvaðanæva úr heiminum og eignaðist góða vini.

Þegar starfsævinni lauk sneri Sverrir sér að golfvellinum. Útivistarmaðurinn hafði fundið sér nýtt verkefni. Í félagsskap Sigríðar Flygenring, vinkonu sinnar, sem án vafa ýtti undir golfáhugann, undi hann sér vel. Þau stunduðu golfið af miklum móð, ferðuðust og nutu lífsins saman á meðan aldur hans og heilsa leyfði.

Við höfum átt samleið í heil þrjátíu ár og mikið óskaplega hefur verið gott og gaman að þekkja Sverri Þórðarson.

Nú þegar minn kæri tengdafaðir hefur lokið sinni göngu þakka ég honum þá góðvild, hjálpsemi og stuðning sem hann hefur sýnt mér allt frá okkar fyrstu kynnum.

Guðrún Hulda

Guðmundsdóttir.

Ég sit einn í farþegasæti bíls, sem lagt er ólöglega í miðbæ Reykjavíkur um sumar, og fylgist með fólkinu líða hægt upp og niður Bankastrætið í fjarska og dagurinn er stilltur og sólríkur og hljóður.

Ég ætla að skipta um útvarpsstöð þegar ég greini kunnuglegar hreyfingar út undan mér og þarna kemur hann gangandi gamli maðurinn niður brekkuna, skínandi hvítt hárið bylgjast aftur, jakkinn er brúnn og buxurnar pressaðar en hreyfingarnar eru ekki eins mjúkar og þær voru, hann þarf að vanda sig í hverju skrefi en hann er samt ennþá furðulega sporléttur og þótt hann fari ekki jafnhratt yfir og hérna áður fyrr þá er hann kvikur, það sér hver maður, fas hans er lifandi, andlitsdrættirnir skarpir og augnaráðið er einbeitt og kraftmikið augnaráð manns með skýran áfangastað. Hann er á hraðferð.

Ég hreifst ungur af ýmsu í fari afa míns, léttlyndi hans, jákvæðu lífsviðhorfi, orðheppni, tilgerðarleysi og ekki síst hversu algjörlega laus hann var við öll formlegheit, hvernig hann lifði nákvæmlega því lífi sem hann vildi lifa.

Öfugt við svo marga sem hafa hátt um mikilvægi og dásemdir frelsisins en nýta það í raun til að fylgja hjörðinni í flestu sem þeir aðhafast sýndi hann mér í hljóðu verki að hver maður verður bæði að kunna og þora að vera frjáls til þess að geta notið þess. En upphaflega var það húmorinn sem sannfærði mig um að ég og afi „Sverri“ værum og yrðum alltaf andlega skyldir. Ég hef ekki verið mikið stærri en brunahani þegar ég heyrði hann fyrst tala um tiltekið úthverfi hérna í Reykjavík sem Gólan-hæðir, þetta var í einhverri af hans fjölmörgu og ofboðslega skilvirku heimsóknum til okkar í Hamrahlíðina, og ég man hversu tryllingslega fyndið og skrýtið mér fannst þetta heiti og alla tíð síðan hafði ég alveg svakalega gaman af því að heyra hann tala í fúlustu alvöru um tilteknar byggingar í Gólan-hæðum, segja að einhver byggi í grennd við Gólan-hæðir og svo framvegis. Hann hélt sínum góða og djúpa húmor allt fram á síðasta dag, þegar ég hitti hann á Þorláksmessu náði hann að minnsta kosti þrisvar að fá mig til að hlæja upphátt með snilldarlegum og óvæntum tilsvörum þrátt fyrir að andlegir og líkamlegir kraftar hans hefðu þá dvínað mikið.

Hann skipti sér ekki óumbeðinn af lífsháttum annars fólks en var hlýr og léttur og skemmtilegur við alla, tók þeim opnum örmum, leyfði þeim að hafa sína hentisemi óháð því hverjir þeir voru eða hvaðan þeir komu. Og þetta átti ekki aðeins við um allt fólkið sem varð á vegi hans. Hann skildi oft útidyrnar opnar heima hjá sér í Suðurgötu svo Depill, köttur Unnar Guttormsdóttur nágranna hans, vinkonu og hjálparhellu, gæti farið frjáls um íbúðina eins og hann vildi og öðrum dýrum sýndi afi minn alla tíð sömu alúð og virðingu.

Mér skilst að Depill sitji oft þögull fyrir framan útidyrahurðina hans afa í Suðurgötu 13 og bíði þar eftir vini sínum og ég er viss um að við Depill eigum það sameiginlegt að afi minn á sérstakan stað í hjörtum okkar beggja og við munum aldrei nokkurn tímann gleyma honum.

Halldór Armand

Ásgeirsson.

Nú er ég aldin að árum.

Um sig meinin grafa.

Senn er sólarlag.

Svíður í gömlum sárum.

Samt er gaman að hafa

lifað svo langan dag.

Er syrtir af nótt, til sængur er mál

að ganga,

– sæt mun hvíldin eftir vegferð

stranga, –

þá vildi ég, móðir mín,

að mildin þín

svæfði mig svefninum langa.

(Örn Arnarson.)

Hvíl í friði, elsku afi.

Ása Þórhildur.

Ég kveð Sverri mág minn með innilegum söknuði. Margar góðar stundir höfum við átt saman og allar minningar um hann eru ljúfar og elskulegar.

Ungur haslaði hann sér völl sem blaðamaður og átti langan starfsferil á Morgunblaðinu. Blaðamennsku fylgja ferðalög og Sverrir naut þess mjög að ferðast. Seinna á ævinni fór hann í langferðir bæði til Egyptalands og Perú. Sem blaðamaður var hann forvitinn bæði um nútíð og fortíð þessara merku þjóða.

Heimili hans og Petru, konu hans, stóð okkur ævinlega opið og heimsóknir til þeirra, hvort sem um var að ræða barnaafmæli eða annað tilefni, voru ánægjulegar og veitingar veglegar.

Sverrir sigldi ekki lygnan sjó um ævina. Hann varð fyrir þungum áföllum, missti einkadóttur sína aðeins 34 ára gamla og konu sína tveimur árum síðar. Þessi áföll settu mark sitt á hann, en hann lét þau ekki buga sig.

Eftir lát Petru heimsótti hann okkur oftar en áður, en staldraði aldrei lengi við. Áður en hann fór spurði hann mig gjarnan hvort hann gæti gert eitthvað fyrir mig.

Þegar ég horfi um öxl koma upp í hugann minningar frá haustinu 1948 þegar við Agnar dvöldum í París. Sverrir kom þá fyrirvaralaust til borgarinnar og dvaldi með okkur nokkra daga. Þetta voru kaldir dagar, haustvindar feyktu gulnuðu laufi um götur og borg, og hvítgrá þoka lá eins og mara yfir borginni. Við vorum raunar um það bil að flytja okkur suður að Miðjarðarhafi, til Nice, og þegar við kvöddum Sverri bjuggumst við ekki við að sjá hann í bráð. Við urðum því öldungis undrandi þegar hann, fáum dögum síðar, situr í stól í dagstofu hótelstýrunnar, frú Duvert, þegar við komum heim á hótel neðan af strönd.

Hann staldraði við fáa daga og fór með okkur í gönguferðir um borgina, oft um þröng öngstræti fátækrahverfanna, víðsfjarri prómenaðinum fræga sem dregur nafn sitt af enskum aristókrötum.

Þessir dagar lifa í minninu nú þegar Sverrir er allur.

Hildigunnur

Hjálmarsdóttir.

Góðan daginn Ogúggúnennin! Það tekur undir í götunni. Sverrir frændi kemur á hröðu skeiði eftir Austurstræti, veifandi og hlæjandi, þar sem ég, skvísan, var að spóka mig í vinkvennahóp hinum megin á götunni. Ég veifa á móti en vinkonurnar stara flissandi á mig. Var maðurinn að kalla á þig? Gaggagú – hvað? Æ, þetta var bara hann Sverrir frændi, en Sverrir var löngu horfinn inn um dyrnar á Moggahöllinni. Ég stóð eftir, blóðrjóð og meðvituð um að það væri nú kannski ekki alveg eftir meðalformúlunni að vera kölluð Oggúggúnennin og það yfir allt Austurstrætið.

En Sverrir var ekki bara Sverrir frændi. Á milli okkar voru alltaf einhver sérstök tengsl. Einhvers staðar, djúpt í móðu minninganna, er myndskeið, Sverrir að syngja, Ogúggunennin, Ogúggunennin, dansandi og hoppandi, sem mér fannst ógurlega fyndið og mikið hlegið og skríkt.

Í okkar fjölskyldu er það lenska að finna upp á gælunöfnum fyrir alla og allt en ekkert toppaði Ogúggúnennin.

En nú er lokið merkri sögu sem spannar meira en eina öld. Sverrir er sá síðasti sem kveður úr systkinahópnum sem oft var kenndur við Klepp, þar sem faðir þeirra, Þórður Sveinsson, var yfirlæknir. Móðir þeirra, Ellen Johanne Sveinsson, fædd Kaaber, kom úr danskri borgarastétt. Kleppur og umhverfið var heimur barnanna. Þar ólust þau upp í tengslum við náttúruna, almenn bústörf, leik og ekki síst samskipti við sjúklingana. Faðir þeirra innrætti þeim að sýna sjúklingunum virðingu. Það var þetta umhverfi sem mótaði þau öll sem eitt. Þau höfðu ekki endilega viðtekna sýn á hvað teldist „eðlilegt“ í mannlegri hegðun. En það, ásamt léttri lund, mikilli kímnigáfu og ótrúlegri lífsorku einkenndi þau öll. En nú er þessum kafla lokið. Sverrir var yngstur og kveður síðastur í hárri elli eins og flest hinna systkinanna.

Eftir að fjölskyldan fluttist frá Kleppi varð miðbærinn, Kvosin og Þingholtin, lífsvettvangur Sverris, en hann starfaði allan sinn starfsferil á Morgunblaðinu, lengst af sem blaðamaður. Og Sverrir var miðbæjarmaður, ætti maður leið um miðbæinn var eins víst að maður rækist á hann á hlaupum.

Sverrir var gæfumaður í einkalífinu. Kona hans Petra Ásgeirsdóttir, eða Peta, var einstaklega hlý og skemmtileg kona. Sverrir kallaði hana Hildi. Ég spurði móður mína hvort hún vissi af hverju. Hún svaraði: „Sverrir hefur alveg original húmor.“ Ég held að það megi segja að akkúrat þessi original húmor hafi ráðið ríkjum á heimilinu, a.m.k. er alveg ljóst að börn þeirra, Ása Steinunn, Þórður og Ásgeir fengu öll ríkulegan skerf í arf.

En forlögin eru grimm. Það var skelfilegt áfall þegar þær mæðgur Ása Steinunn og Peta létust með skömmu millibili, báðar af völdum krabbameins.

Sverrir bar hins vegar gæfu til að eignast síðar Sigríði Flygenring að förunaut. Saman nutu þau þess að iðka sameiginlegt áhugamál sitt, golf og ferðalög.

Ég mun sakna Sverris frænda míns. Ég þakka honum samfylgdina og óska honum góðrar heimkomu.

Aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð.

Unnur Úlfarsdóttir.

Sverrir Þórðarson móðurbróðir minn er látinn og nú eru þau öll farin, systkinin frá Kleppi. Sverrir var þeirra yngstur, varð 90 ára á sl. ári. Hann dvaldi á Skjóli síðustu æviárin sín eftir lærbrot, en fram að þeim tíma var hann kvikur á fæti og sást þá gjarnan gangandi hröðum skrefum um bæinn, einkum í miðbænum. Hann vann alla tíð sem blaðamaður á Morgunblaðinu og í starfi sínu upplifði hann margt sögulegt og var m.a. fréttaritari við réttarhöldin yfir nasistaforingjunum í Nürnberg.

Sverri var kvikur og hressilegur í tilsvörum og hafði góðan húmor. Hann var alla tíð grannur og sportlegur í útliti og unglegur í fasi fram til þess er hann lærbrotnaði. Göngurnar hafa greinilega haldið honum í góðu formi. Þegar hann var kominn á efri ár og hafði orðið fyrir ástvinamissi er hann missti eiginkonu sína og dóttur á stuttum tíma, ákvað hann að ganga á Kilimanjaro án þess að undirbúa það sérstaklega og fór á toppinn án vandræða. Hann fór fleiri ævintýraferðir á fjarlægar slóðir auk þess sem hann tók upp á því að fara að spila golf. Í golfinu hitti hann að nýju vinkonu frá æskuárunum og urðu þau góðir félagar og samferða í golfi innan lands og utan meðan heilsan leyfði.

Sverrir var mjög hjálpsamur að eðlisfari og leit oft inn á bernskuheimili mínu, til að gá hvort hann ætti ekki að snúast eitthvað fyrir systur sína. Þau eru ófá viðvikin sem Sverrir sá um að koma í verk. Þau mamma höfðu á seinni árum mjög hentugt fyrirkomulag sem bæði höfðu gagn og gaman af, Sverrir kom á bílnum, þau fengu sér morgunkaffi og saman fóru þau svo í útréttingar, m.a. versluðu þau í matinn í versluninni Nóatúni.

Þar voru þau alltaf á sama tíma, klukkan rúmlega 10 og voru svo sæt og samhent systkin að starfsfólkið í Nóatúni hafði orð á. Svo útbjó mamma hádegisverð handa þeim sem þau borðuðu saman. Það var mikil hjálp fyrir mig að Sverrir skyldi sjá um að keyra mömmu nánast í allar þær útréttingar sem hún þurfti, og ég er honum ævinlega þakklát fyrir það. Einnig var gott að vita af þeim systkinunum í góðum félagsskap hvors annars. Eftir að mamma lést áttum við Jón margar góðar stundir með Sverri, m.a. ferðuðumst við á slóðir forfeðranna til Ítalíu, Frakklands og Þýskalands í góðum félagsskap ættmenna og maka. Hann var skemmtilegur ferðafélagi.

Ég og fjölskylda mín vottum sonum Sverris, fjölskyldum þeirra og Sigríði samúð og þökkum Sverri fyrir samfylgdina.

Kristín Halla Traustadóttir.

Með Sverri, frænda okkar, er hið síðasta af systkinunum frá Kleppi gengið á vit örlaga sinna. Bræðurnir sex og systir þeirra voru öll litríkir persónuleikar sem settu sterkan svip á samtímann. Þau voru miðbæingar sem lifðu og hrærðust í Kvosinni þar sem þau unnu nær öll fyrst eftir stríð. Á venjulegum degi mátti sjá Hörð stika í SPRON, þar sem hann var sparisjóðsstjóri, Úlfar þjóta á milli húsa með læknatöskuna, Nínu á leið til vinnu á tannlæknastofuna á Öldugötu, Agnar arka frá Hressingarskálanum upp á Landsbókasafn, Gunnlaug bruna eftir götunum og blaðamanninn Sverri að ræða við fólk fyrir utan Morgunblaðið sem þá var til húsa að Austurstræti 8.

Sverrir var Moggamaður. Blaðamennskan var honum í blóð borin og starfið var líf hans og yndi. Hann hafði ódrepandi áhuga á öllu í kringum sig, naut þess að ræða við fólk, en var einnig góður hlustandi. Sverrir var vinnusamur og fljótur til verka. Allir þessir eiginleikar gerðu hann að úrvalsblaðamanni sem átti langan og farsælan feril.

Sverrir og Petra eignuðust sjónvarpstæki langt á undan foreldrum okkar og þangað var stundum haldið þegar ómissandi þættir voru í Kanasjónvarpinu. Agnar og eldri synirnir Uggi og Úlfur bönkuðu gjarnan upp á þegar vitað var að lögregluhetjan Elliott Ness og flokkur hans „The Untoucables“ myndu verða á skjánum. Seinna kom Sveinn stundum í heimsókn á Þórsgötuna á laugardagsmorgnum þegar hver æsiþátturinn rak annan. Alltaf var tekið á móti okkur með opnum örmum og hressing boðin og þegin með þökkum og eigum við góðar minningar frá þessum tíma.

Sverrir var léttur á sér og kvikur í hreyfingum. Hann gekk alla tíð mikið, og ekki dró úr gönguferðunum þegar hundur kom á heimili þeirra. Mátti oft sjá þá vinina Sverri og hundinn fara mikinn um Öskjuhlíðina. Á efri árum greip Sverri mikill golfáhugi og hélt hann stundum í ferðir til útlanda þar sem hann náði að sameina áhuga sinn á íþróttinni og ánægju sína af ferðalögum. Tvisvar fór Sverrir með í svokallaðar Klepparaferðir, sem farnar hafa verið á slóðir húgenotta, forfeðra Ellenar Kaaber, móður hans. Sú síðari var til Berlínar og þegar ekið var um glæsileg stræti borgarinnar hafði Sverrir á orði að Berlín hefði mikið breyst frá því er hann kom þangað strax eftir seinna stríð sem fréttaritari Morgunblaðsins við Nürnberg-réttarhöldin. „Þarna voru kálgarðar,“ sagði hann og benti yfir breiðgötuna Unter den Linden.

Sverrir var afar notalegur maður og þægilegur. Hann hafði góða kímnigáfu og gat verið hnyttinn í tilsvörum. Það er með mikilli eftirsjá og söknuði sem við kveðjum góðan frænda.

Uggi, Úlfur og Sveinn.

Sverri Þórðarsyni var umhugað um aðra og lét mann vita af sér ef á móti blés. Símtöl hans gegnum tíðina, til að teja í mann kjark og vita hvort allt væri ekki í lagi, verða mér lengi eftirminnileg og mikils virði. Trúlega var hann það af börnum Þórðar og Ellenar sem ég kynntist mest, að pabba, dr. juris Gunnlaugi Þórðarsyni, undanskildum.

Í barnæsku bjó ég í sama húsi á Leifsgötu og þau hjónin Sverrir og Peta og gerði mér oft ferð niður stigann til þeirra til að sverma fyrir súkkulaði eða öðru góðgæti. Dóttir þeirra heitin, Ása Steinunn, varð mín fyrsta vinkona sem barn og varði vinskapur okkar líf hennar til enda. Ása hafði mikinn og stórskemmtilegan karakter. Þá minnist ég þess enn að á jólum, í den tid, deildu Sverrir og fjölskyldan með okkur jólakvöldi hjá ömmu Ellen í Suðurgötu.

Ég hef oft rýnt í ljósmyndir af föður hans, Þórði Sveinssyni yfirlækni á Kleppi, og er ekki frá því að ég hafi fundið sterkari svip Þórðar í andliti og fasi hans en hinna systkinanna; hárinu, hvernig hann brosti og hallaði undir flatt.

Sverrir var mikill náttúruunnandi og kom oft upp í sumarbústað hér á árum áður. Og þá brugðum við okkur út á bát. Það blundaði í honum grallari og oft sagði hann góðar sögur. Á háskólaárunum í Stokkhólmi gisti hann hjá mér stutta stund á fréttamannaferðalagi og ég minnist þess tíma, hve gaman var að hafa hann í heimsókn. Vertu sæll frændi minn, þín verður saknað. Ég færi fjölskyldu hans samúðarkveðjur.

Hrafn Gunnlaugsson.

Það var bjart yfir Sverri Þórðarsyni. Ég kynntist honum fyrst þegar ég kom til starfa á Morgunblaðinu í afleysingum 1982. Hann var hár og grannvaxinn með mikið silfurgrátt hár, sístarfandi, kvikur í hreyfingum, fljótur til svars og stutt í hláturinn. Hann tók vel á móti reynslulausum og fákunnandi nýliða og lét honum líða eins og jafningja. Sverrir var þá þegar einn af nestorum íslenskrar blaðamennsku. Þegar hann hóf störf á Morgunblaðinu var ritstjórn þess í Austurstræti og mátti telja starfsmenn hennar á fingrum beggja handa. Hann hafði ekki verið lengi í blaðamennsku þegar hann fór til Þýskalands 24 ára gamall til að fylgjast með stríðsglæparéttarhöldunum í Nürnberg árið 1946.

Í viðtali í Morgunblaðinu fyrir fimm árum sagði hann að það hefði verið „þrúgandi lífsreynsla“. Þýskaland var í rústum þegar Sverrir kom þangað. Í skrifum sínum færir hann lesandann inn í réttarsalinn og lýsir sakborningunum. Hann lýsir einnig Nürnberg, sem var vettvangur helstu skrautsýninga nasista og skrifar um þá „viðburðanna rás, sem rak þá einkennisbúnu og öfgafullu afbrotamenn ofan af veldisstólunum og inn í fangaklefana. Nú sitja þessir menn ákærðir fyrir alþjóða dómstóli.“ Sverrir var orðlagður fyrir að hafa gott nef fyrir fréttum. Í viðtali, sem Sveinn Guðjónsson tók við hann og birtist í afmælisbók Blaðamannafélags Íslands 2007, segir Sverrir: „Eigum við ekki bara að orða það svo að „skúbb“ komu öðru hvoru í gegnum tíðina, og sum „skúbbin“ voru bara skratti góð.“

Sverrir vann á Morgunblaðinu í tæplega 50 ár og setti mikinn svip á blaðið á þeim tíma. Í áðurnefndu viðtali segir Sverrir að hann sjái ekki eftir að hafa valið sér blaðamennsku að lífsstarfi: „Þetta er besti skóli sem hægt er að hugsa sér. Fyrir ungan mann, sem er að fara út í lífið, er ekki hægt að hugsa sér betri skóla en blaða- og fréttamennsku, jafnvel þótt menn hverfi svo síðar til annarra starfa. Blaðamennskan opnar margar dyr, gefur mönnum nýja sýn og vekur ný viðhorf til lífsins og tilverunnar.“

Það var gæfa Morgunblaðsins að Sverrir skyldi gera blaðamennsku að ævistarfi sínu. Hann var frábær starfsfélagi og ráðagóður. Eftir að hann hætti stöfum 1992 hélt hann nánu sambandi við blaðið og kom reglulega í heimsókn á meðan hann hafði heilsu til. Morgunblaðið þakkar Sverri að leiðarlokum langt og farsælt samstarf og trausta vináttu og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Karl Blöndal,

aðstoðarritstjóri.

Í afmælisblaði Morgunblaðsins 2. nóvember 1953 er grein eftir Valtý Stefánsson, þar sem hann gerir einskonar úttekt á sögu blaðsins og þástarfandi blaðamönnum á ritstjórn, fróðleg grein og harla athyglisverð, ekki sízt nú þegar aldarafmæli blaðsins er í augsýn.

Umsögn hans um Sverri Þórðarson er svohljóðandi: „...gerðist starfsmaður ritstjórnarinnar fyrir 10 árum, en áður hafði hann um skeið verið starfsmaður Landsbankans. Vinnur hann aðallega að öflun og ritstjórn innlendra frétta og er, sem kunnugt er, afkastamikill starfsmaður, áhugasamur og árvakur.“

Það er áreiðanlega engin tilviljun að Valtýr notar orðið árvakur um Sverri, enda var hann einskonar tákngervingur blaðsins á þeim tíma og þjóðkunnur fyrir blaðamennsku sína. Samt voru blaðamenn ekki eins í sviðsljósinu og nú um stundir, en undirskriftin Sv.Þ. nægði öllum landslýð sem höfundareinkenni á pistlum og fréttaklausum. Síðar varð sú mikla breyting með sjónvarpinu að fréttamenn urðu aðalfréttin í hverju máli og uppi fótur og fit, t.a.m. í Bandaríkjunum, þegar þjóðfrægir fréttahaukar komu á vettvang, slík varð frægð þeirra.

Þessi þróun hefur ekki orðið til góðs, hún hefur ýtt undir tilgerð og hégóma

Sverrir var ekki aðeins árvakur fréttamaður, heldur kurteis og hlédrægur og vann sín störf án tilgerðar. Hann var öllum öðrum meiri fréttahaukur og átti t.a.m. mikinn þátt í því að upplýsa okkur um flóðin miklu á sjötta áratugnum, þegar Holland var á leiðinni undir sjó, en þangað fór hann fyrir blaðið og skilaði mikilli frásögn, þegar heim kom. Annars voru fréttir blaðsins þá yfirleitt ómerktar, þótt fréttaritara eins og Steina á Valdastöðum væri oftast getið, en þeir fjölluðu mest um sitt umhverfi, veður og skepnuhöld og var vinsælt efni. Þeir sáu um sína innansveitarkroniku, en Sverrir sá um það sem hann þekkti flestum betur, Reykjavík og umhverfi, en báðir voru þeir partur af miðbænum, hann og Ívar fréttastjóri, þar þekktu þeir hvern krók og kima og þorra íbúanna.

Það var blaðinu mikill styrkur.

Sverrir átti hamingju og gleði að fagna í farsælu lífi sínu.

En þegar mestur harmur var kveðinn að þeim Hildi og Ása Steinunn lézt í blóma lífsins, skrifaði ég minningargrein á þessum vettvangi og fjallaði m.a. um vináttu okkar og samstarf og því engin ástæða að endurtaka það (9. ág. 1984).

En um leið og ég þakka Sverri vini mínum langa samfylgd er gott að minnast orða Valtýs um árvekni fréttahauksins mikla, afköst hans og áhuga og muna þau einföldu sannindi að enginn lærir blaðamennsku, ef hann er ekki fæddur með bakteríuna. En það er þó hægt að læra þau tæknilegu atriði sem slíku starfi fylgja.

Sverrir Þórðarson var fæddur blaðamaður.

Matthías Johannessen.