Júdó
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Þormóður Árni Jónsson, fremsti júdókappi þjóðarinnar síðustu árin, ætlar að halda sig að mestu á heimaslóðum á árinu. Mjög ólíklegt er að hann keppi í heimsbikarmótum á þessu ári en mun væntanlega keppa fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg í vor.
Þormóður tjáði Morgunblaðinu þetta í gær en hann tekur það fram að framtíðin sé óráðin. Með öðrum orðum þá þarf þetta ekki að þýða að Þormóður sé hættur að glíma við þá bestu í heiminum. Hann hefur einfaldlega ekki gert það upp við sig og benti á að hann hefði einnig haldið sig hér heima keppnistímabilið eftir Ólympíuleikana í Peking árið 2008.
„Ég er að einbeita mér að námi um þessar mundir en ég er á öðru ári í viðskiptafræðinni. Ég æfi nánast jafn mikið og ég gerði og mun keppa á mótum hér heima. Ég mun örugglega keppa á Norðurlandamótinu og á Smáþjóðaleikunum. Þetta er ekkert mjög ólíkt því sem ég gerði tímabilið 2008 – 2009. Ég er mjög nálægt því að vera í toppformi en ég er reyndar búinn að missa tólf kíló frá því á Ólympíuleikunum,“ sagði Þormóður þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær.
Ekki sniðugt að vera svona léttur
Hann segir góða tilfinningu fylgja því að létta sig en segir að ef hann væri á leiðinni í keppni í heimsbikarnum þá væri ekki sniðugt fyrir sig að vera svona léttur í þungavigtinni.„Ég breytti aðallega mataræðinu því mig langaði til þess að prófa að fara undir 7% í fituprósentu. Mig langaði bara að sjá hvernig ég liti út ef ég myndi gera það en þetta hefði ekki verið sniðugt ef ég hefði verið að keppa á þeim tíma, vegna orkuleysis. Nú er ég aftur farinn að borða til þess að viðhalda þyngd og mér finnst miklu skemmtilegra að vera í þessari þyngd dags daglega. Ef ég væri að keppa í heimsklassa þá myndi það sennilega ekki borga sig að vera 124 kg frekar en 136 kg,“ sagði Þormóður en við þetta má bæta að keppinautar hans eru oft á tíðum yfir 150 kg og sá þyngsti á Ólympíuleikunum í London var meira en 200 kg. Hann var jafnframt þyngsti keppandi Ólympíuleikanna.Þormóður verður þrítugur í mars en hann hefur keppt á síðustu tvennum Ólympíuleikum. Hann náði auk þess besta árangri sem Íslendingur hefur náð í heimsbikarnum þegar hann glímdi til úrslita á heimsbikarmóti árið 2011.