Nauðsyn Þyrlur Gæslunnar hafa oft skipt sköpum þegar neyð ber að.
Nauðsyn Þyrlur Gæslunnar hafa oft skipt sköpum þegar neyð ber að. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Ríkiskaup hafa opnað tilboð í leigu á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna. Nú í haust auglýstu Ríkiskaup eftir tilboðum í leigu á tveimur björgunarþyrlum, til gæslu- og björgunarstarfa.

Ríkiskaup hafa opnað tilboð í leigu á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna. Nú í haust auglýstu Ríkiskaup eftir tilboðum í leigu á tveimur björgunarþyrlum, til gæslu- og björgunarstarfa. Í auglýsingunni kom fram að leigan væri til næstu 6-8 ára og skyldu þyrlurnar afhendast á tímabilinu frá apríl 2013 fram á mitt ár 2014.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni og Ríkiskaupum segir að tilboð hafi borist frá tveimur aðilum í leigu á tveimur þyrlum. Jafnframt kemur fram að um sé að ræða tilboð í leigu á þyrlum af gerðinni Super Puma, nánar tiltekið EC 225.

Landhelgisgæslan hefur haft tvær þyrlur sömu gerðar að láni undanfarin ár, TF-SYN og TF-GNA. Leigusamningur um TF-SYN átti að renna út um áramótin en framlengdist vegna skoðunarmála. Leigusamningur vegna TF-GNA rennur út um mitt ár 2014.

Niðurstaða innan fjögurra vikna

Ríkiskaup og Landhelgisgæslan munu fara yfir tilboðin á næstu misserum og kanna hvort þau standist þær kröfur sem settar voru fram í útboðsgögnum. Ennfremur segir í tilkynningu að stefnt sé að því að yfirferð Ríkiskaupa og Landhelgisgæslunnar á tilboðunum ljúki innan fjögurra vikna.