Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Fyrir tveimur árum hófu norsk stjórnvöld á ný leit að olíu á Jan Mayen-hryggnum, þar sem Drekasvæðið íslenska er að finna, og hleypur kostnaðurinn við leitina á hundruðum milljóna norskra króna, eða sem svarar milljörðum króna.
Leitin er umfangsmeiri en fyrri áfangar í olíuleit Norðmanna, að sögn Terjes Hagevang, forsvarsmanns Valiant Petroleum, norsks olíuleitarfélags sem tekur þátt í olíuleit á Drekasvæðinu íslenska, ásamt Kolvetnum ehf., með þátttöku norska ríkisolíufélagsins Petoro.
Spurður út í kostnaðinn segist Hagevang áætla að Norðmenn hafi varið sem svarar milljörðum íslenskra króna í tvívíðar mælingar á berggrunninum. Það er athyglisvert mat. Þannig áætlar Gunnlaugur Jónsson, stjórnarformaður Kolvetna ehf., að tvívíðar mælingar hópsins sem hann er þátttakandi í á Drekasvæðinu muni kosta frá 650 og upp í 1.300 milljónir króna. Á móti kemur samsvarandi upphæð hins hópsins sem hefur sérleyfi. Samanlagt er það mun lægri tala en Hagevang nefnir hjá Norðmönnunum.
Þrívíðar mælingar dýrari
Hagevang segir að ef tvívíðar mælingar gefi góða raun muni Norðmennirnir fara í þrívíðar mælingar sem kosti margfalt meira en tvívíðar. Má af því skilja að þar yrði um tugi milljarða íslenskra króna að ræða.Hagevang segir að gögnin sem norsk stjórnvöld afla með nýjustu rannsóknum sé trúnaðarmál þeirra og Orkustofnunar en að leyndinni verði að óbreyttu aflétt innan tíðar, jafnvel í sumar.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er litið svo á innan norska olíuiðnaðarins að tæknin til olíuvinnslu á Jan Mayen sé komin lengra en umræða um vinnsluna á vettvangi stjórnmála og umhverfismála.
Spurður út í þetta segir Hagevang ýmislegt til í þessu. Þegar Norðmenn og Íslendingar sömdu um landgrunnið árið 1981 hafi tæknin ekki verið fyrir hendi. Nú sé hún hins vegar notuð víða um heim við olíuvinnslu á miklu dýpi.