Vegna kosninga telur ráðherra ástæðu til að skipa nefnd sem skili engu

Kosningar nálgast. Þetta eru út af fyrir sig ekki stórtíðindi en þó er gott þegar svo háttar til í stjórnmálum sem nú að vera minntur á það með reglubundnum hætti. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa verið duglegir að minna á komandi kosningar og einn þeirra gerði það einmitt í gærmorgun.

Katrín Júlíusdóttir, sem gegnir um hríð starfi fjármála- og efnahagsráðherra, flutti ávarp á skattaráðstefnu og viðurkenndi þar að mikið hefði verið um skattabreytingar og -hækkanir í tíð þessarar ríkisstjórnar. Af þessum sökum yrði skipuð nefnd til að fara yfir þessar breytingar og skattkerfið í heild, einkum með það fyrir augum að einfalda kerfið.

Óhætt er að segja að Katrín hafi ekkert ýkt þegar hún sagði að búið væri að breyta miklu í skattkerfinu og hækka skatta, en þó að hægt sé að taka undir þetta og gott betur skortir af ýmsum ástæðum verulega á trúverðugleika orða ráðherrans.

Ekki eru nema fáeinir dagar frá því að þessi sami ráðherra knúði ýmiskonar flækjur og hækkanir á skattkerfinu í gegnum þingið og nægir að nefna hótelskattinn í því sambandi, sem gerir hvort tveggja.

Ráðherra sem hefur þá skoðun að einfalda beri skattkerfið og jafnvel að skattar hafi verið hækkaðir of mikið stendur ekki fyrir slíkum aðgerðum í því eina fjárlagafrumvarpi sem hann hefur nokkuð um að segja á sínum örstutta fjármálaráðherraferli. En ráðherra sem áttar sig á því þar sem hann situr í bílnum á leiðinni á ráðstefnu um skattamál, að hann hefur ekkert jákvætt fram að færa um þau mál, getur vissulega leiðst út í að ákveða að viðra þá hugmynd að skipa nefnd til að fjalla um skattamál. Þetta á sérstaklega við þegar ráðherrann veit að stutt er til kosninga og að störf nefndarinnar, takist á annað borð að skipa hana fyrir kosningar, munu aldrei verða til neins.

En þrátt fyrir að kosningar nálgist og Katrín hafi viljað tala til þeirra sem búnir eru að fá nóg af skattastefnu núverandi ríkisstjórnar tókst ekki betur til en svo að þeir sem á hlýddu áttuðu sig á að ráðherrann meinti ekkert með þeim orðum sínum að skattar hefðu breyst oft og hækkað. Katrín var nefnilega líka föst í spuna ótal „upplýsingafulltrúa“ um að allar þessar skattahækkanir hafi alls ekki haft neikvæð áhrif. Þvert á móti sé Ísland í fremstu röð og mikill árangur hafði náðst í ríkisfjármálum. Þess vegna verði allar breytingar sem gerðar verði hér eftir að vera gerðar af ábyrgð, sem er annað orðalag yfir að alls ekki megi lækka skatta. Enda tókst Katrínu að fara í gegnum alla ræðuna sína án þess að nefna skattalækkun nokkurn tímann.

Ráðherrar og aðrir talsmenn ríkisstjórnarinnar munu í þessum málaflokki sem öðrum fram að kosningum stundum beita þeirri aðferð að viðurkenna að sumt mætti betur fara og að til standi að laga það. Allar líkur eru þó á að trúverðugleiki málflutningsins verði hinn sami og hjá Katrínu Júlíusdóttur í gær.