Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Vestmannaeyingar undirbúa nú minningarathöfn vegna 40 ára frá upphafi eldgossins í Heimaey hinn 23. janúar 1973. Athöfnin miðvikudaginn 23. janúar næstkomandi verður á lágstemmdum nótum, að sögn Kristínar Jóhannsdóttur, ferða- og menningarmálafulltrúa Vestmannaeyjabæjar. Von er á sendiherrum erlendra ríkja sem komu mikið við sögu í gosinu, biskupi Íslands og fleiri fyrirmennum til Eyja. Forseta Íslands hefur einnig verið boðið til athafnarinnar.
„Sendiherra Bandaríkjanna kemur en Bandaríkjamenn hjálpuðu okkur mikið og eins sendiherra Noregs og Norðmenn gerðu mikið fyrir okkur. Þeir hafa báðir staðfest komu sína,“ sagði Kristín. Hún sagði að minninarathöfnin ætti að vera táknræn og lágstemmd.
„Við ætlum að hittast í Landakirkju og þar verður stutt athöfn. Agnes M. Sigurðardóttir biskup verður þar og eitthvað af prestum sem hafa starfað hér í gegnum tíðina,“ sagði Kristín. „Það verður kveikt á blysum eftir allri gossprungunni sem opnaðist um nóttina forðum. Einnig verður farin blysför frá kirkjunni og niður að höfn. Það fer eftir veðri hvort við förum inn í Herjólf eða verðum úti. Þar verða bæði ávörp og tónlistaratriði sem hæfa þessu tilefni.“
Goslokanefnd og Vestmannaeyjabær hafa óskað eftir því við útgerð Herjólfs að seinni ferð ferjunnar falli niður hinn 23. janúar nk. Það er til þess að skipið verði til taks vegna minningarstundarinnar.
Dagskráin hefst um klukkan 19.00. Kristín sagði að bæði Ríkissjónvarpið og Stöð 2 ætluðu að fjalla um 40 ára afmæli Heimaeyjargossins.
Ljósmyndasýning um Heimaeyjargosið verður opnuð í Sagnheimum, byggðasafni Vestmannaeyja, klukkan 17.00 um daginn. Þar verða sýndar myndir eftir ljósmyndara sem störfuðu í Vestmannaeyjum í gosinu. Þar á meðal má nefna Sigurgeir Jónasson, Guðmund Sigfússon, Hjálmar R. Bárðarson og Kristin Benediktsson.
Eftir að dagskrá lýkur við höfnina verða opin kaffihús, m.a. Vinaminni og Kaffi Kró. Þar verða bæði veitingar og tónlistaratriði.
„Þetta verður upphafið á stóru afmælisári,“ sagði Kristín. Goslokahátíðin verður haldin helgina 5.-7. júlí í sumar. Þar verður mikil dagskrá. Í haust, 14. nóvember, verða 50 ár liðin frá upphafi Surtseyjargossins. Kristín sagði stefnt að því að halda Surtseyjarhátíð í Eyjum í haust.
HEIMAEYJARGOSIÐ VAR FYRSTA ELDGOSIÐ Í BYGGÐ Á ÍSLANDI
Flúðu heimili sín að næturlagi
Eldgosið í Heimaey sem hófst þann 23. janúar 1973 var fyrsta eldgosið í byggð á Íslandi. Gosið hófst um fimm mínútum fyrir klukkan tvö um nóttina. 1.600 metra löng gossprunga opnaðist á austurhluta Heimaeyjar.Fólk vaknaði eða var vakið, það yfirgaf heimili sín og streymdi niður á bryggjur og um borð í fiskibáta sem voru í landi vegna brælu daginn áður. Fyrsti báturinn lagði úr höfn rúmum hálftíma eftir að gosið hófst. Einnig streymdu flugvélar til Eyja að sækja fólk.
Goslokum var lýst yfir þann 3. júlí 1973. Nánar má lesa um eldgosið á vefsíðunni Heimaslóð (heimaslod.is).