Einstakur Guðjón Valur Sigurðsson á magnaðan feril á HM með íslenska landsliðinu og bætir enn við hann á Spáni á næstu dögum. Fertugasti HM-leikur hans er gegn Rússum
Einstakur Guðjón Valur Sigurðsson á magnaðan feril á HM með íslenska landsliðinu og bætir enn við hann á Spáni á næstu dögum. Fertugasti HM-leikur hans er gegn Rússum — Morgunblaðið/Ómar
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, er sá leikmaður landsliðsins á HM á Spáni sem hefur leikið flesta HM-leiki. Hann hefur leikið 39 leiki og viðureignin við Rússa á morgun verður þar með hans fertugasti HM-leikur.

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, er sá leikmaður landsliðsins á HM á Spáni sem hefur leikið flesta HM-leiki. Hann hefur leikið 39 leiki og viðureignin við Rússa á morgun verður þar með hans fertugasti HM-leikur. Aðeins Ólafur Stefánsson á að baki fleiri leiki á HM, 54 leiki á sjö mótum.

Ekki misst úr leik

Guðjón Valur tók þátt í sínum fyrsta HM-leik á mótinu sem fram fór í Frakklandi í ársbyrjun 2001 og hefur ekki misst úr leik síðan. Hann hefur semsagt leikið alla 39 HM-leiki Íslands á þessari öld sem er örugglega einstakur árangur fyrir útispilara.

Ólafur náði þessum árangri ekki á sínum ferli en fór nærri því. Hann lék 38 af 39 HM-leikjum Íslands frá 2001 til og með HM 2011.

Í fyrsta leik Guðjóns Vals á HM mætti íslenska landsliðið Svíum og tapaði, 24:21. Guðjón Valur skoraði þrjú mörk.

Skorað mark í 36 leikjum

Í 39 leikjum á HM hefur Guðjón Valur skorað mark í 36 leikjum, alls 195 mörk.

Leikirnir sem Guðjón Valur náði ekki að skora í mark voru gegn Júgóslavíu á HM 2001 og í viðureignum við Þýskaland og Pólland á HM 2003. Hann hefur nú skorað í 27 HM-leikjum í röð.

Flest mörk í einum leik skoraði Guðjón Valur gegn Ástralíu á HM 2007, 15 mörk, í 45:20 sigri Íslands. Hann hefur fjórum sinnum náð að skora einn tug marka eða meira í leik á HM. iben@mbl.is