HM á Spáni
Tómas Þór Þórðarson
tomas@mbl.is
HM í handbolta hefst í kvöld með upphafsleik gestgjafa Spánar gegn Alsír. Ísland hefur svo leik á laugardaginn gegn Rússlandi en strákarnir okkar leika í B-riðli ásamt Rússum, Dönum, Makedónum, Katar og Síle.
Mikilvægt er fyrir íslensku strákana að vinna Rússa strax í fyrsta leik til að lenda ekki í eltingarleik í riðlinum og vera með örlögin í sínum eigin höndum.
Á Spáni verður aftur tekið upp hið góða og einfalda útsláttarfyrirkomulag að riðlakeppninni lokinni þar sem það lið sem vinnur fjóra leiki verður heimsmeistari. Eins og alltaf skiptir það máli að gera vel í riðlakeppninni en til þess að komast hjá því að spila við allra bestu lið mótsins fyrr en í undanúrslitum er mikilvægt að lenda í efstu tveimur sætum B-riðils.
Sleppa við Frakka og Þjóðverja
Til að stytta okkur stundirnar fram að morgundeginum skulum við aðeins fara í leikinn sem allir landsliðsþjálfarar hata en þjóðin elskar: Ef og hefði. Það gerum við til að velta fyrir okkur mótherjum Íslands í 16-liða og 8-liða úrslitum.Gefum okkur það að Danmörk vinni alla sína leiki í okkar riðli enda ríkjandi Evrópumeistarar með ógnarsterkt lið. Með því spilar einn albesti leikmaður heims, Mikkel Hansen, einn albesti markvörður heims, Niklas Landin, og þrír markahæstu leikmenn þýsku 1. deildarinnar; hornamennirnir Hans Óttar Lindberg, Anders Eggert og Lasse-Svan Hansen.
Ef Ísland nær öðru sætinu, sem við bæði vonumst og ætlumst til að liðið geri, mætir það liðinu sem endar í þriðja sæti A-riðils í 16-liða úrslitum. Í þeim riðli eru Frakkar og Þjóðverjar næsta örugglega að fara að raða sér í efstu tvö sætin og því mikilvægt að ná efstu tveimur sætunum í B-riðli til að komast hjá því að mæta þeim. Ísland myndi þá væntanlega mæta Svartfjallalandi í 16-liða úrslitum nema Túnis, Argentína eða Brasilía springi út. Við veðjum á líklegasta kostinn hérna sem er Svartfellingar.
Það er svo sannarlega leikur sem Ísland getur unnið þó hann sé alls ekki gefinn. Svartfjallaland er þó klárlega fýsilegri kostur en Frakkland og Þýskaland.
Annað sæti jafnvel betra en fyrsta sæti
Nú ef Ísland vinnur Svartfjallaland fer það í átta liða úrslit þar sem margir spekingarnir eru á því að Ísland ljúki keppni. En svo þarf ekki að vera því annað sætið í B-riðli mætir efsta liði C-riðils í átta liða úrslitum. Það hljómar kannski illa en er ekki svo slæmt. Í C-riðli leikur Pólland, Slóvenía, Serbía, Hvíta-Rússland, Suður-Kórea og Sádi-Arabía.Pólland er með nýjan þjálfara en líklegt til sigurs í riðlinum vegna gæða leikmannanna. Slóvenar voru öflugir á EM í fyrra en þó nánast á heimavelli í Serbíu sem hjálpaði liðinu mikið. Gestgjafar síðasta móts, Serbar, fóru alla leið í úrslit en gátu svo ekkert á Ólympíuleikunum þegar þeir voru ekki með heimavöllinn á bakvið sig.
Það skiptir í raun ekki máli hvert þessara liða vinnur C-riðilinn því Ísland getur unnið þau öll í átta liða úrslitum. Gangi þetta allt upp kemst Ísland í undanúrslit án þess að mæta Frökkum, Þjóðverjum, Spánverjum, Króötum, Ungverjum og frændum vorum Dönum nema í riðlakeppninni.
Það gæti meira að segja verið betra að enda í öðru sæti B-riðils en því fyrsta því liðið í efsta sæti gæti mætt sterku liði Ungverja í átta liða úrslitum.
Hægt er að leika sér í ef og hefði endalaust en eitt er þó algjörlega ljóst; Það er gríðarlega mikilvægt að enda í tveimur af efstu sætum riðilsins því annars bíða stórliðin strax í 16-liða úrslitum.
Hættulegur leikur
Morgunblaðið bar þessar pælingar undir Óskar Bjarna Óskarsson, fyrrverandi aðstoðarlandsliðsþjálfara, sem var sammála því að Pólverjar væru líklegastir til að vinna C-riðilinn. Hann var samt fljótur að benda á að þótt sum lið ættu að teljast „þægilegri“ en önnur hefði Ísland áður brennt sig á svoleiðis pælingum. Nú síðast bara á Ólympíuleikunum.„Í London áttum við að hafa fengið þægilegasta andstæðinginn í Ungverjum en það fór eins og það fór. Þegar þú ert kominn í 16-liða úrslit eru þetta bara bikarúrslitaleikir.
Á Ólympíuleikunum í Peking áttum við að hafa fengið eitt sterkasta liðið þegar við mættum Póllandi en við unnum það. Þetta snýst allt um hvernig sjálfstraustið er í liðinu eftir riðilinn og hvernig ástandið á liðinu er,“ segir Óskar Bjarni.
Var ánægður að fá Ungverja
„Ég var voða ánægður með að fá Ungverjana á Ólympíuleikjunum því þeir hafa hentað okkur en svo hefur lið eins og Slóvenía ekki hentað okkur. En nú er nýr þjálfari í brúnni og kannski aðeins öðruvísi áherslur hjá liðinu. Það er líka spurning um hvernig vörnin þróast. Það er voða erfitt núna að vita hvaða lið henta Íslandi þar sem áherslurnar í varnarleiknum gætu breyst í riðlakeppninni. Lið sem kannski hentuðu okkur á síðasta móti gera það ekki núna því það er nýr þjálfari og nokkrir nýir leikmenn,“ segir Óskar Bjarni.Spurður um lykilinn að velgengni Íslands á mótinu segir Óskar Bjarni að breiddin muni skipta sköpum og þeir sem komi inná verði að leggja sitt af mörkum.
„Það mikilvægasta fyrir okkur er að þeir sem eru á bekknum komi inná og geri eitthvað. Ef bekkurinn gerir ekkert á mótinu gerir liðið ekkert í átta liða úrslitum,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson.
HM á Spáni
» Ísland er í B-riðli með Rússlandi, Síle, Makedóníu, Danmörku og Katar.
» Fjögur lið fara áfram í sextán liða úrslit og mæta liðum úr A-riðli en þar eru Frakkland, Þýskaland, Svartfjallaland, Argentína, Brasilía og Túnis.
» Ítarlegar upplýsingar um keppnisfyrirkomulagið er að finna í 24 síðna blaðinu um HM sem fylgir Morgunblaðinu í dag.