Heitur Páll Axel fór á kostum.
Heitur Páll Axel fór á kostum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Sauðárkróki Óli Arnar Brynjarsson sport@mbl.is Tindastóll og Skallagrímur mættust í gærkvöldi í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki en um var að ræða leik sem tvívegis hafði verið frestað í fyrri umferð Domino's-deildarinnar.

Á Sauðárkróki

Óli Arnar Brynjarsson

sport@mbl.is

Tindastóll og Skallagrímur mættust í gærkvöldi í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki en um var að ræða leik sem tvívegis hafði verið frestað í fyrri umferð Domino's-deildarinnar. Eftir afleita byrjun á mótinu sigruðu Stólarnir í síðustu tveimur leikjum sínum fyrir jólafrí og var mikilvægt fyrir liðið að komast aftur á sigurbraut eftir tap í Grindavík í síðustu viku.

En þeir sáu aldrei til sólar gegn sterku liði Borgnesinga sem náðu góðu forskoti strax í fyrsta leikhluta eftir stórleik Páls Axels Vilbergssonar. Lokatölur voru 72:85. Stuðningsmenn Tindastóls voru hóflega bjartsýnir fyrir leik en Stólarnir komu hálf-lemstraðir til leiks, nokkrir máttarstólpa liðsins nánast á öðrum fæti. Það kom á daginn að Skallagrímsmenn voru sterkari með Kanana sína tvo, Medlock og Quaintance, í hörkuformi. Þeir gerðu fyrstu körfurnar í leiknum og síðan datt Páll Axel í stuð og þá leist stuðningsmönnum Stólanna ekki á blikuna. Kappinn lék sér að því að skjóta yfir varnarmenn Tindastóls hvar sem honum datt í hug og var kominn með 17 stig eftir fyrsta leikhluta en þá var staðan 19:28 fyrir gestina.

Varnarleikur Tindastóls lagaðist í þriðja leikhluta en sóknarleikur liðsins var slakur allt kvöldið. Allt of margir leikmenn voru langt frá sínu besta og oft var eins og körfuboltinn væri vel rakt sápustykki í höndum Stólanna – boltinn skoppaði hvað eftir annað eitthvað út í loftið og tapaðist. Gestirnir náðu 19 stiga forskoti eftir 22 mínútna leik en Stólarnir náðu upp ágætri baráttu og minnkuðu muninn í 10 stig, 45:55. Þá hljóp heimamönnum kapp í kinn og nú átti að jafna í hverri sókn en 3ja stiga skotin voru ekki að rata rétta leið. Aftur náðu gestirnir góðum kafla en hinn síungi Svavar Birgisson var seigur fyrir Stólana og minnkaði muninn. Í liði Skallagríms var annar jafnvel síyngri en Svavar, því Sigmar Egilsson, sem er nánast búinn með fertugsaldurinn, skóflaði niður flautuþristi og jók muninn í 14 stig en Svavar átti síðasta orðið í 3ja leikhluta og setti samviskusamlega niður tvö víti. Staðan 54:66 og það glitti í smá von hjá Stólunum.

Sanngjarn sigur Skallanna

Sú von varð að engu í byrjun fjórða leikhluta því Skallagrímur gerði fyrstu 6 stigin og í kjölfarið jókst hraðinn í leiknum en gæðin minnkuðu enn meira. Engu að síður mátti sjá háloftahetjurnar Valentine og Quaintance skila niður ógurlegum troðslum en öll spenna var úr leiknum og heimamenn orðnir ansi mæðulegir.

Gestirnir úr Borgarnesi voru vel að sigrinum komnir og virkuðu ansi sterkir. Páll Axel var þeirra stigahæstur með 28 stig en gat leyft sér að taka það rólega í síðari hálfleik. Madlock (21 stig) og Quaintance (17 stig / 15 fráköst) voru magnaðir í gærkvöldi en þessir þrír voru yfirburðamenn í liði Skallagríms. Hjá heimamönnum var fátt um fína drætti. George Valentine (20 stig / 19 fráköst) var bestur í liði Tindastóls en þrátt fyrir að spila meiddur átti Drew Gibson betri leik en oft áður og gerði 13 stig. Svavar Birgisson og Helgi Freyr Margeirsson áttu ágæta spretti í liði Stólanna sem nú þurfa að rífa sig upp ef ekki á illa að fara í vetur.