Guðrún Sigurðardóttir fæddist í Grindavík 11. september 1943. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 5. janúar 2013.
Foreldrar hennar voru Sigurður Magnússon skipstjóri, f. 16.8. 1915, d. 16.8.1992, og Þórlaug Ólafsdóttir húsfreyja, f. 15.10. 1920, d. 15.2. 1999. Systkini Guðrúnar eru: Ólafur Ragnar, f. 14.2. 1941, Sóley Jóhanna, f. 25.3. 1945, d. 22.10. 1957, Bjarney Kristín, f. 25.3. 1945, d. 6.12. 1962, Guðjón, f. 12.6. 1950, Sóley Þórlaug, f. 17.6. 1958, og Hrafnhildur, f. 13.6. 1962.
Guðrún ólst upp í Grindavík, gekk í barnaskólann þar og stundaði síðan nám við Héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði. Guðrún kynntist Sigurði Bjarna Sveinbjörnssyni frá Ljótsstöðum á Höfðaströnd í Skagafirði 1965 og giftu þau sig 14. maí 1966. Sigurður sinnti verslunarstörfum og var heimili þeirra hjóna í Grindavík. Sigurður lést árið 2002. Guðrún bjó síðustu æviárin í Hafnarfirði. Börn Guðrúnar og Sigurðar eru: 1) Sóley Ólöf, f. 1960, maki Heiðar Jóhannsson, börn þeirra: Davíð Bjarni, Arnór og Bjarkey, 2) Bjarney Kristín, f. 1963, maki Ólafur Ingólfsson, börn þeirra: Guðrún Sif, Sigrún Inga og Erna Rún, 3) Þórey Maren, f. 1966, maki Óskar Thorarensen, börn þeirra: Maren, Unnur Ósk og Birta, 4) Sveinbjörn Sigurður, f. 1972, maki Arndís Þorvaldsdóttir, börn þeirra: Thelma, Sigurður Pétur, Elma Valgerður, Hekla Rut, Glódís Ýr, Eyþór Haukdal og Ernir Haukdal.
Guðrún sinnti ýmsum störfum m.a. verslunar-, umönnunar- og þjónustustörfum, ásamt því að sinna uppeldi barna sinna. Hún var mjög virk í félagsstörfum.
Útför Guðrúnar verður gerð frá Grindavíkurkirkju í dag, 11. janúar 2013, og hefst athöfnin kl. 13.
Elsku besta amma, þú varst svo ótrúlega sterk og frábær kona og það geta allir verið sammála því sem þekktu þig. Þú varst ekki bara amma mín heldur líka vinkona mín. Þú kenndir mér svo margt og hafðir alltaf tíma fyrir mig. Sumarbústaðarferðirnar eru ógleymanlegar, þá tókum við alltaf upp prjónana og höfðum það gott. Ég á svo margar góðar minningar um þig sem ég mun aldrei gleyma. Þú ert fyrirmyndin mín. Ég elska þig, amma mín, þú munt alltaf lifa í hjarta mínu.
Þitt barnabarn,
Unnur Ósk Thorarensen.
Þú elskaðir mikið að búa til alls konar hekl, prjón, föndur og handverk, og mér þykir svo vænt um alla þá hluti sem þú hefur búið til handa mér og þeir hvetja mig til að vera eins hugmyndarík og dugleg í höndunum eins og þú varst.
Ég er svo þakklát að ég náði að komast til Íslands frá Dubai og fá að sjá þig og verja tíma með þér á þínum síðustu dögum og mér þykir svo vænt um það að ég náði að kveðja þig mjög vel á gamlárskvöld áður en ég hélt aftur út í hinn stóra heim, óviss um það hvort ég myndi sjá þig aftur eða ekki.
Við áttum góða kveðjustund, þar sem þú sagðir við mig sem þú segir alltaf við mig þegar við kveðjumst eða þegar þú skrifar kort til mín, mína uppáhaldssetningu frá þér sem mér þykir svo vænt um, og ég spila það aftur og aftur inni í mér og les setningu á kortum frá þér aftur og aftur.
Þann 5. janúar var ég stödd í Melbourne, Ástralíu. Ég fór í göngutúr í fallegan garð, tók ljósmyndir og settist á bekk og las bók í sólskininu. Mér varð mikið hugsað til þín, amma, og ég bjó til markmið fyrir árið og nokkur loforð til þín. Nokkrum klukkutímum seinna á leiðinni í vinnuna frétti ég að þú værir farin frá okkur.
Ég mun standa við þau loforð sem ég gaf fyrir þig, amma, og ég ætla alltaf að vera jafn dugleg og kraftmikil og þú varst í lífinu. Ég sé það svo mikið með hverju árinu hvað ég er lík og er að líkjast þér og mömmu, eitthvað sem ég var alfarið á móti þegar ég var yngri en er hæstánægð með núna. Þið eruð mínar fyrirmyndir ásamt Sigrúnu ömmu.
Elsku amma, takk yndislega mikið fyrir allt sem þú hefur kennt mér og allar þær stundir sem við áttum saman, t.d. í Grindavík, Lyngheimum, göngutúrana, ferðalög, hringinn í kringum landið, jól og hátíðardaga, afmæli og útskriftir, þú hefur alltaf verið til staðar fyrir mig öll mín 24 ár og það er mjög óraunverulegt að þú sért í alvörunni farin frá okkur og ég get ekki talað við þig á skype eða í símann né hitt þig og varið tíma með þér þegar ég kem til Íslands. En ég veit að nú á ég annan verndarengil sem mun passa mig mjög vel á ferðalögum mínum um heiminn og hjálpa mér í gegnum lífið ef mig vantar hjálparhönd.
Elsku amma, ég veit þér líður betur núna á meðal hinna englanna í paradís og Siggi afi hefur tekið vel á móti þér. Ég mun varðveita minninguna um þig vel, dugnað þinn og allt sem þú hefur kennt mér.
Ég elska þig, Gógó amma mín.
Þín litla Gógó,
Guðrún Sif.
Gógó greindist með krabbamein fyrir fáeinum árum sem hún hefur háð baráttu við síðan. Aldrei var hægt að skynja eða sjá að veikindi hrjáðu hana. Hún sagði alltaf allt gott, „annað væri ekki í boði“. Hún var alltaf til í að gera eitthvað skemmtilegt, má segja til hinsta dags. Gógó var mikill Grindvíkingur og hugur hennar var oft hér. Hún var mjög minnug á allt gamalt og var mjög gaman að ræða við hana um liðna tíð. Hún verður lögð til hinstu hvílu við hlið eiginmanns síns í kirkjugarðinum að Stað í Grindavík.
Ég kveð kæra vinkonu með söknuði og þakka henni fyrir vináttu og tryggð.
Kolbrún.
Aðeins eitt hús var á milli æskuheimila okkar, Sólheima þar sem Gógó átti heima og Pálshúss. Gógó átti mjög fallegt dót sem Jón móðurbróðir hennar sem þá var í siglingum keypti handa henni, dót sem ekki var til í búðum hér á landi og var mér sveitastelpunni framandi.
Mér er minnisstætt þegar við vorum að leika okkur á loftinu á Sólheimum að Ragna amma Gógóar sem hafði herbergi á efri hæðinni og lá rúmföst eftir lærbrot og hafði gaman af að spila, kallaði alltaf ef hún heyrði til okkar: „Stelpur, Gógó og Stína, komið að spila.“ Þarna lærðum við að spila manna og fleiri spil, stundum fórum við hljóðlega um til þess að hún heyrði ekki í okkur þegar við nenntum ekki að spila, vildum heldur leika okkur.
Gógó var skemmtilegur leikfélagi og mjög uppátækjasöm. Við uxum úr grasi og bernskuár okkar að baki eins og gengur og unglingsárin tóku við með ýmsum uppátækjum sem verða ekki rakin hér. Ævilöng vinátta okkar sem hófst með bernskuleikjum hefur haldist alla tíð. Þegar ég hringdi í Gógó á afmælinu hennar 11. september sl. áttum við langt og gott samtal og rifjuðum upp gamla daga, bernskubrek okkar og uppátæki. Gógó var einstaklega minnug og hafði alltaf gaman af að rifja upp það gamla.
Gógó bar veikindi sín vel, þrátt fyrir margar og erfiðar lyfjameðferðir kvartaði hún aldrei. „Hef það bara ágætt, það er ekki annað í boði,“ sagði hún ævinlega þegar hún var spurð um heilsufarið. Nú að leiðarlokum vil ég þakka Gógó æskuvinkonu minni ævilanga vináttu. Börnum Gógóar og fjölskyldunni allri sendum við Jonni innilegar samúðarkveðjur.
Kristín Thorstensen.
Við kveðjum þig, kæra vinkona, með söknuði og þakklæti fyrir samfylgdina. Hvíl í friði.
Fyrir hönd skólasystranna,
Hekla.
Við viljum þakka henni fyrir 35 ára samfylgd og vináttu sem byrjaði þegar við fluttum til Grindavíkur. Það var margt brallað og áttum við margar góðar stundir saman.
Við biðjum fjölskyldu hennar Guðs blessunar.
Hvíldu í friði, kæra vina
þú komin ert í himnavist.
Til þess er allar þrautir linar
og þeirra er fyrr þú hefur misst.
(I.K.)
Sigrún og Ingólfur,
Sigrún og Jóhannes,
Aldís og Haraldur.