Stjörnurnar
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
Á hverju heimsmeistaramóti skara alltaf einhverjir leikmenn fram úr öðrum. Sennilega er það bara lífsins gangur og ekkert við því að gera í sjálfu sér. Yfirleitt koma helstu kapparnir úr þeim liðum sem skara fram úr en alltaf er auðvitað eitthvað um það að ungir og efnilegir menn slái í gegn, jafnt með „stærri“ liðunum sem þeim „minni“. Þegar upp er staðið eru það yfirleitt leikmenn úr þeim liðum sem leika um verðlaunasæti, eða eru næst þeim heiðri, sem valdir eru í úrvalslið mótsins og þykja hvað mikilvægastir eða „verðmætastir“.
Þegar horft er yfir sviðið fyrir heimsmeistaramótið á Spáni, sem er það 23. í röðinni, skýtur nokkrum nöfnum handknattleiksmanna upp í kolli þess sem þetta ritar þegar velt er vöngum yfir hverjir koma til greina sem „stjörnur“ mótsins.
Þjóðverjar koma með lítt reynt og fremur ungt lið til leiks en innan og saman við eru þó þekktir leikmenn sem gætu, ef Þjóðverjar ná sér á flug, orðið einir af þeim stóru á mótinu. Markvörðurinn litríki Silvio Heinevetter hefur um árabil verið einn fremsti markvörður Þýskalands. Á síðustu árum hefur hann leikið stærra hlutverk í þýska landsliðinu, ekki síst í fjarveru Johannes Bitter, sem lengi var aðalmarkvörður þýska landsliðsins í gegnum súrt og sætt.
Hvað gerir Karabatic?
Frakkar lögðu litla áherslu á árangur á Evrópumeistaramótinu í Serbíu í fyrra þótt þeir ættu titil að verja. Þeir notuðu EM til þess að prófa sig áfram fyrir Ólympíuleikana síðar á árinu. Flestir reikna með að Frakkar komi til Spánar af meiri alvöru en til Serbíu í fyrra. Ef franska liðið blómstrar verður það ekki síst af því að Thierry Omeyer, markvörðurinn magnaði, Daniel Narcisse, Luc Abalo, Didier Dinart, Nikola Karabatic og fleiri verða í stuði. Narcisse hefur leikið frábærlega með þýska meistaraliðinu Kiel síðustu misseri, eins og félagi hans Omeyer. Óvíst er hins vegar hvaða áhrif „getraunahneykslið“ í kringum leikmenn franska meistaraliðsins Montpellier hefur á Karabatic. Hann hefur ekki verið nema svipur hjá sjón á leiktíðinni og er sagður vilja skipta um félag, jafnvel hefur verið látið að því liggja að Karabatic vilji halda heim til æskuslóða foreldra sinna og leika með landsliði Svartfjallalands.Karabatic hefur verið helsta stjarna síðustu stórmóta þótt mörgum hafi þótt frægðarsól hans hafa hnigið í réttu hlutfalli við gengi franska landsliðsins á EM í fyrra.
Hansen og Landin mikilvægir
Segja má að stórskyttan Mikkel Hansen og markvörðurinn Niklas Landin hafi fyrst sprungið út fyrir alvöru á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð fyrir tveimur árum. Þeir voru frábærir með danska landsliðinu fyrir ári þegar það varð Evrópumeistari. Þótt Danir eigi marga mjög góða leikmenn er alveg ljóst að verði Landin og Hansen ekki framúrskarandi á HM á Spáni mun danska landsliðið ekki ná langt þótt það hafi innan sinna vébanda sterka leikmenn eins og Hans Lindberg, Anders Eggert og Jesper Nöddesbo, svo aðeins nokkrir séu nefndir.Ef danska landsliðið hrekkur í stuð er aldrei að vita nema hinn hávaxni Nikolaj Markussen og hinn ungi og efnilegi Mads Mensah Larsen hrökkvi í gang og komi einhverjum á óvart. Þeirra er a.m.k. framtíðin.
Rússar eru að komast inn á rétt spor á nýjan leik undir stjórn Olegs Kuleshovs. Leikmenn eins og Konstantin Igropolo og Alexei Rastvortsev gætu verið á meðal þeirra sem blómstruðu hjá Rússum takist þeim að hafa sig til flugs á nýjan leik á heimsmeistaramóti eftir nokkur mögur ár.
Ríki fyrrverandi Júgóslavíu hafa orðið fyrirferðarmeiri á stórmótum handknattleiksins á undanförnum árum. Lengi vel voru Króatar með besta landsliðið af þessum þjóðum og voru alltaf í verðlaunabaráttu. Þeir verða það örugglega áfram en fleiri landslið hafa gert sig málsmetandi á síðustu árum, eins og Serbar, Slóvenar og Makedóníumenn.
Stanic fór á kostum á EM
Serbar unnu silfurverðlaun á EM á heimavelli á síðasta ári, rækilega studdir af þúsundum landa sinna í hverjum leik. Markvörðurinn Marko Stanic fór á kostum og hreif landa sína áfram, utan vallar sem innan. Hann mætir örugglega í fínu formi til leiks á Spáni. Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel, Momir Ilic og Marko Vujin, verða örugglega í stórum hlutverkum hjá Serbum ef þeir komast á sama skrið og þeir gerðu á EM í fyrra.
Zorman skiptir Slóvena máli
Uros Zorman er eini leikmaður slóvenska landsliðsins sem var með á EM 2004 í Slóveníu þegar heimamenn fengu silfurverðlaun eftir tap fyrir Þjóðverjum í úrslitaleik. Slóvenar eru með samstætt og skemmtilegt lið þar sem fáar stjörnur eru innanborðs en e.t.v. þeim mun jafnari og betri leikmenn sem stíga allir í takt. Zorman er kjölfesta liðsins, hokinn af reynslu og ótrúlega útsjónarsamur.Örvhenta skyttan Kiril Lazarov var markahæsti leikmaður HM 2009 og EM í fyrra. Hvort sem Makedóníumönnum á eftir að vegna vel eða illa á HM á Spáni má fastlega reikna með að hann verði helsta skytta mótsins og einn markahæsti, ef ekki sá markahæsti, meðan landslið Makedóníu helst inni í keppninni. Vert er að fylgjast með Lazarov en einnig landa hans Naumce Mojsovski, sem er hægrihandarskytta og ýmislegt til lista lagt.
Króatar munu tefla fram nokkuð breyttu liði að þessu sinni. Ivano Balic, einn besti handknattleiksmaður síðustu ára, verður ekki með og heldur ekki Igor Vori, línumaðurinn stóri og stæðilegi. Ivano Cupic, Blazenko Lackovic og Domagoj Duvnjak verða hins vegar með ásamt fleiri reyndum köppum í bland við minni spámenn sem hugsanlega verða stærri með tíð og tíma.
Miklar kröfur til Rutenka
Mikið mun mæða á stórskyttunni Siarhei Rutenka í leikjum Hvít-Rússa í C-riðli Zaragoza. Rutenka hefur víða farið og leikið á síðustu árum, jafnt með félagsliðum og landsliðum, en er nú kominn heim til Hvíta-Rússlands á nýjan leik. Hann er ein helsta stjarna Spánarmeistara Barcelona og því ekki óeðlilegt að margir muni horfa til hans sem einnar af stjörnum HM. Hins vegar eru fæstir samherjar hans jafnsterkir og því óvíst hversu lengi Rutenka mun fá að láta ljós sitt skína á mótinu.Heimamenn, Spánverjar, ætla sér sigur í mótinu. Þeir hafa lagt nótt við dag við undirbúning. Valero Rivera landsliðsþjálfari hefur þó þurft að bíta í það súra epli að sjá á bak sterkum leikmönnum í meiðsli síðustu vikur. Breiddin í leikmannahópi Spánverja er hins vegar mikil, þar kemur sterkur maður í manns stað. Víst er að mikið mun mæða á Arpad Sterbik í fjarveru hins þrautreynda markvarðar Javiers Hombrados.