Viðhorf
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
Í aðdraganda heimsmeistaramótsins í handknattleik karla, sem hefst á Spáni í kvöld, hefur vaknað á ný umræða um sjónvarpsútsendingar frá leikjum Íslands á mótinu en flestir leikir Íslands verða í lokaðri dagskrá. Sama umræða var uppi fyrir tveimur árum þegar sama var upp á teningingum. Margir hafa síst sparað stóru orðin í þessum umræðum. Sumir kenna RÚV um hvernig málum er komið, aðrir skella skuldinni að ósekju á Handknattleikssamband Íslands.
Að skella skuldinni á HSÍ er fullkomlega út í hött. HSÍ hefur ekkert um það að segja hverjir kaupa sýningarrétt frá leikjum Íslands á stórmótum í handknattleik, karla eða kvenna, og gildir þá einu hvort um er að ræða lokakeppni Evrópumóts eða heimsmeistaramóts. HSÍ á ekki sýningarréttinn og hefur engar tekjur af sölu hans. HSÍ stendur ekki einu sinni til boða að kaupa réttinn, væri áhugi fyrir hendi.
HSÍ hefur um langt árabil verið með samning við RÚV um útsendingar frá þeim landsleikjum Íslands sem sambandið hefur umráðarétt yfir, þ.e. leikjum í undankeppni EM og HM og vináttuleikjum hér heim. Ekki er langt síðan sá samningur var endurnýjaður.
Þegar kemur að leikjum í lokakeppni stórmóta í handknattleik hafa sérsambönd eins ekkert að segja um, hvar útsendingarrétturinn hafnar í viðkomandi löndum né hvernig útsendingum er háttað, hvort þær eru t.d. í opinni eða lokaðri dagskrá.
IHF seldi réttinn
Í tilfelli heimsmeistaramótsins var rétturinn í höndum Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF. Það kaus að selja réttinn áfram til fyrirtækis sem kallast UFA. Það selur réttinn áfram til sjónvarpsstöðva víða um heim. Sami háttur er hafður á um sölu á nær öllu íþróttaefni frá stórmótum. Tekjurnar af sölu sjónvarpsréttarins frá handknattleiksmótum renna ekki til sérsambanda eins og HSÍ, heldur til rekstrar IHF. HSÍ hefur aldrei fengið krónu úr sjóðum IHF.Hér heima stóð RÚV og Stöðvar2Sport til boða að kaupa útsendingarréttinn. Þeir síðartöldu buðu betur og hrepptu hnossið, HSÍ hafði ekkert með málið að gera.
Árum saman sóttust forsvarsmenn Stöðvar2Sports ekki eftir sýningarréttinum frá lokakeppni stórmóta í handknattleik. Á því varð breyting þegar þeir buðu í HM í fyrsta sinn, höfðu betur, og sýndu frá HM karla og kvenna 2011 og nú frá HM karla 2013. RÚV sat eftir með sárt ennið og hefur því verið haldið fram að RÚV hafi sofnað á verðinum þegar kom að kaupum á sýningarréttinum.
Verður þetta framtíðin?
Ekkert skyldar forsvarsmenn Stöðvar2Sport til þess að hafa leiki Íslands í opinni dagskrá. Þeir selja sitt efni til þess að standa straum af þeim kostnaði sem þeir hafa lagt út í vegna kaupa á því. Síðan er það landsmanna að ákveða hvort þeir vilja kaupa aðgang eða ekki og auðvelda þar með eigendum efnisins að standa straum af þeim kostnaði sem þeir hafa lagt út í. Hagnaðurinn, ef einhver verður, fer í vasa sjónvarpsstöðvarinnar, ekki HSÍ.Landsmenn þurfa á næstu árum að búa sig undir það að útsendingar frá stórmótum í handknattleik verði að einhverju eða jafnvel að öllu leyti í lokaðri dagskrá. Sjónvarpsefnið er í sölu á opnum markaði. Sá sem býður best hreppir hnossið.
Alþjóða handknattleikssambandið og Handknattleikssamband Evrópu, EHF, sem á sýningarréttinn frá Evrópumótum landsliða, selja sitt efni á eins háu verði og þau geta áfram til fyrirtækja sem koma því áfram í verð til sjónvarpsstöðva víða um heim. Tekjur af þeirri sölu renna ekki til aðildarsambanda IHF og EHF. Meðan áhugi er fyrir hendi bæði hjá RUV og einkareknum sjónvarpsstöðvum hér á landi að kaupa efnið þá er ekki hægt að útiloka að útsendingar frá leikjum Íslands frá stórmótum í handknattleik hafni í höndum stöðva sem senda út efni sitt í lokaðri dagskrá.
Á sama tíma er HSÍ með „strákana og stelpurnar okkar“ milli steins og sleggju á milli sjónvarpsstöðvanna og þjóðarinnar. Fær ekki krónu í tekjur af sýningarréttinum en situr hinsvegar uppi með skammir reiðrar þjóðar algjörlega að ósekju.