Meistara- og 2. flokkur ÍBV í handknattleik karla fara til Sevilla á sunnudaginn í viku æfinga- og keppnisferð. Alls verða 37 í hópnum, þar af 25 leikmenn þessara tveggja flokka.

Meistara- og 2. flokkur ÍBV í handknattleik karla fara til Sevilla á sunnudaginn í viku æfinga- og keppnisferð. Alls verða 37 í hópnum, þar af 25 leikmenn þessara tveggja flokka.

„Okkur þótti upplagt að nýta hléið á Íslandsmótinu til þess að fara út í æfingaferð, eins og við höfum gert áður,“ sagði Arnar Pétursson, annar þjálfari ÍBV-liðsins, en aðalþjálfari liðsins, Erlingur Richardsson, er í þjálfarateymi íslenska landsliðsins á HM. „Við skipulögðum æfingaferð í kringum riðlakeppni landsliðsins þannig að menn fengju meira út úr ferðinni en æfingar,“ sagði Arnar. „Við munum æfa daglega og stundum tvisvar á dag og leika tvo æfingarleiki við lið á svæðinu,“ sagði Arnar ennfremur.

„Strákarnir hafa verið mjög duglegir og hafa safnað sjálfir fyrir allri ferðinni, meðal annars með því að vinna við löndun, þrif í kringum hús og einnig tekið að sér fleiri verk,“ sagði Arnar en leikmenn standa straum af öllum kostnaði við ferðina.

Eyjmennirnir ná þremur leikjum með íslenska landsliðinu í riðlakeppninni í Sevilla, gegn Makedóníu, Danmörku og Katar.

„Við ætlum að setja okkur í samband við Einar [Guðlaugsson] við komuna út þannig að íslenski hópurinn vinni sem best saman á leikjunum. Við stefnum á að sitja öll saman og mynda góða stemningu,“ sagði Arnar. iben@mbl.is