Stefnan mótuð Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður flokksins, á flokksþingi í sumarlok 2011.
Stefnan mótuð Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður flokksins, á flokksþingi í sumarlok 2011. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Talið er að um fjórðung ónýttra birgða af jarðefnaeldsneyti sé að finna á norðurslóðum.

Viðtal

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Talið er að um fjórðung ónýttra birgða af jarðefnaeldsneyti sé að finna á norðurslóðum. Ef það á að fara að brenna þessu eldsneyti á öldinni eru öll markmið um að stöðva loftslagsbreytingar af mannavöldum rokin út í veður og vind. Svo einfalt er það,“ segir Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra fyrir Alþýðubandalagið og einn hugmyndafræðinga VG í umhverfismálum, um áform um olíuleit og síðar vinnslu á Drekasvæðinu.

Hjörleifur telur aðspurður að fyrirhuguð olíuleit gangi í berhögg við stefnu VG í loftslagsmálum.

Samræmist í engu stefnu VG

„Ég sé ekki að þetta samræmist stefnu VG á nokkurn hátt. VG hefur einn flokka verið með ákveðna stefnu í loftslagsmálum og hún hefur heldur betur riðlast með útgáfu þessara sérleyfa. Ég tel að aðrir flokkar sem hafa tjáð sig um málið hafi ekki haft neina ákveðna stefnu. Eftir útgáfu sérleyfanna í síðustu viku, þ.e.a.s eigi sú ákvörðun að standa óbreytt, eru allir flokkarnir komnir í sömu lest hvað þetta varðar. Í rauninni er það undrunarefni hvað stjórnmálaflokkarnir, svo ég spyrði þá saman, eru veikburða í stefnumörkun og við mat á þeim háska sem sækir að jarðarbúum vegna loftslagsvandans. Þeir hafa þar enga skýra stefnu. Þetta er átakanlegt og ekki er Sjálfstæðisflokkurinn barnanna bestur í þeim efnum. Á þeim bæ eru að mér virðist engir fyrirvarar gerðir um losun gróðurhúsalofttegunda.“

– Þú gagnrýndir andvaraleysi forystumanna VG í olíumálum í nýlegri blaðagrein. Hefur grasrótin í flokknum ekkert komið að málum?

„Nei. Það er mér ekki kunnugt um. Mér vitanlega hafa þessi mál ekki komið upp á yfirborðið í neinni opinberri umræðu hérlendis og ekki heldur innan VG.“

Engin umræða innan flokksins

– Þannig að forystan er ekki að fylgja eftir samþykktum innan flokksins með útgáfu sérleyfa?

„Nei, ekki mér vitanlega. Ég hef ekki séð nein merki þess. Þegar Orkustofnun tilkynnti að veita ætti sérleyfin til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu 3. desember sl. þá hafði ekki nokkur umræða farið fram um málið, enda áttuðu fæstir sig á hvað væri í vændum.“

– Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, sagði í tilefni sérleyfanna að skapast hefði þörf fyrir nýjan umhverfisflokk. Ertu sammála?

„Hann verður að útfæra það nánar, ef hann er með áskorun í þessa veru. Hitt er annað mál að það er full ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu umhverfismála almennt hér á landi og auðvitað á heimsvísu. Ég held að allir flokkar þyrftu að skoða sína stöðu í því samhengi. Ætla menn að sitja uppi sem nátttröll andspænis þeirri loftslagsvá sem er orðin almennt viðurkennd af fræðasamfélaginu og vísindamönnum? Ætla stjórnmálamenn að standa eins og þvörur og taka ekkert tillit til þessa í sínum ákvörðunum og stefnumörkun? Það er hið stóra áhyggjuefni.

Það er vonandi að menn vakni og það verður bara að reyna á það hvort það gerist í núverandi flokkum eða með nýjum flokkum. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með að þetta skref skuli hafa verið stigið. Þetta er í engu samræmi við stefnu flokka á svipuðum slóðum og VG annars staðar á Norðurlöndum. Þar vísa ég til Sosialistisk Venstreparti í Noregi sem hefur haldið höfði í þessu máli og spyrnt við fótum gegn því sem ríkisstjórnarflokkur að farið verði í olíuvinnslu á nýjum svæðum norður með Noregi, við Lófót og norðar, hvað þá í Barentshafi.“

OLÍULEIT MÓTMÆLT

Ólga meðal græningja

Sú ákvörðun forystu VG að fallast á olíuleit á Drekasvæðinu hefur fallið í grýtta jörð meðal umhverfisverndarsinna.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, gagnrýndi olíustefnu formanns VG í samtali við mbl.is.

„Það sem kemur okkur á óvart er að Steingrímur J. Sigfússon skyldi taka á móti norska olíumálaráðherranum og fagna þessu... Við eigum að láta olíuna á Drekasvæðinu liggja kyrra.“

Guðmundur H. Guðmundsson, formaður Landverndar, tók í sama streng á mbl.is. „Ef það er ekki til stjórnmálaflokkur í landinu sem er andsnúinn olíuleit hlýtur að vera pláss fyrir einn flokk í viðbót.“