Tallinn varð um áramótin fyrsta höfuðborgin í Evrópusambandslandi til að veita öllum íbúunum rétt til ókeypis ferða með öllum strætisvögnum og sporvögnum borgarinnar. Samkvæmt reglum sem tóku gildi á nýársdag fengu nær 420.000 skráðir íbúar borgarinnar rétt til ókeypis almenningssamgangna eftir að hafa keypt sérstakt kort sem kostar aðeins tvær evrur, jafnvirði 340 króna.
Vinstrimenn í Miðflokknum, sem er við völd í Tallinn, segja að markmiðið með þessu sé að draga úr bílaumferð og loftmengun í borginni. Andstæðingar flokksins segja hins vegar að markmið hans sé aðeins að auka fylgi sitt fyrir borgarstjórnarkosningar sem fara fram í október.