Hörður Þorleifsson sendi svar við vísnagátu Páls Jónassonar sem birtist í Vísnahorninu í gær: Valur mannsnafn ágætt er sem ekki leyndist fyrir mér. Það er einnig hentugt hér að hundur nafnið fái sér.

Hörður Þorleifsson sendi svar við vísnagátu Páls Jónassonar sem birtist í Vísnahorninu í gær:

Valur mannsnafn ágætt er

sem ekki leyndist fyrir mér.

Það er einnig hentugt hér

að hundur nafnið fái sér.

Kerlingin á Skólavörðuholti hlustar stundum á Rás 2 kl. 8 á morgnana, en þá eru vísnagátur lagðar fyrir hlustendur. Og hún bætir í þann sarp með persónulegri vísnagátu:

Hvað er það sem varma veitir.

Vímu ljúfrar tendrar glóð.

Illa mig til reiði reitir.

Ranglar gjarnan sömu slóð.

Ráðningin er vitaskuld í bundnu máli:

Murrar líkt og hrjóti hrútur.

Hrekkjóttur og fyrir slark.

Þetta er Lurkur labbakútur,

Laugavegsins kennimark.

Ármann Þorgrímsson kippir sér ekkert upp við það að árin færist yfir:

Á afturfótum enn um sinn

uppi stendur kallinn

þó bætist ár við aldurinn

en alltaf stækkar skallinn.

Enn bættist vísa við í dagbók Davíðs Hjálmars Haraldssonar, 9. janúar:

Flytur mig sem fugl um geim

flaugarinnar kraftur.

Í dag ég sæki Drottin heim.

Það dregst ég komi aftur.

Heyr á endemi, hváði Sigrún Haraldsdóttir og er löngu búin að sjá í gegnum hann:

Hefur víst af göflum gengið,

galnar sögur Davíð ort.

Muncahausen hefur fengið

heilkenni af verstu sort.

En Davíð gefur lítið fyrir vantrú Sigrúnar:

Vandi er að verja sig,

ég vil þó reyna að svara:

Sigrún ljúga segir mig

en sjálf hún lýgur bara.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir, Fía á Sandi, leggur orð í belg:

Ef hann Davíð ekki lýgur

sem akkúrat ég held.

Í Himnaranni hátt hann svífur

eða Hel að vaða eld.

Að síðustu vísnagáta úr fórum Sigrúnar:

Fyrst ég konu freista hlaut.

Fröken eitrað kæfði.

Valin bæði í vín og graut.

Vilhjálmur mig hæfði.

Svarið birtist á þriðjudag en gaman væri að fá lausnir í bundnu máli.

Pétur Blöndal

pebl@mbl.is