Reyndur hópur fólks stendur að vanda á bak við íslenska landsliðið á meðan það tekur þátt í leikjum heimsmeistaramótsins í handknattleik. Ekki fer mikið fyrir þessu fólki, sem starfar að mestu á bak við tjöldin við það nauðsynlega verk að sjá til þess að leikmenn séu líkamlega klárir í slaginn.
„Fólkið á bak við tjöldið“ eru þau Ingibjörg Ragnarsdóttir sjúkranuddari, Elís Þór Rafnsson sjúkraþjálfari og læknarnir Brynjólfur Jónsson og Örnólfur Valdimarsson, en tveir þeir síðastnefndu munu skipta með sér tímanum á Spáni. Einnig verður Einar Örn Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, með í för en hann er fararstjóri. Einar hefur marga fjöruna sopið með landsliðinu á þriggja áratuga ferli með því, fyrst sem landsliðsmarkvörður, síðar sem aðstoðarlandsliðsþjálfari en síðustu nærri 15 ár sem framkvæmdastjóri HSÍ.
Brynjólfur verið lengst
Fjórmenningarnir Brynjólfur, Elís, Ingibjörg og Örnólfur hafa lengi starfað með íslenska landsliðinu, Brynjólfur sennilega lengst eða í hartnær þrjá áratugi.„Ég man ekki hvað mótin mín með landsliðinu eru orðin mörg en þau eru orðin mjög mörg,“ svaraði Ingibjörg þegar hún var spurð hversu oft hún hefði farið með landsliðinu á stórmót auk allra landsleikjanna. „Ég man bara að þegar ég byrjaði að vinna með landsliðinu þá var Þorbjörn Jensson landsliðsþjálfari,“ sagði Ingibjörg sem auk þess að vera sjúkranuddari hefur einnig verið fararstjóri í nokkrum ferðum samhliða því að hafa umsjón með öllum búningum og öðru sem fylgir landsliðinu á ferðum um heiminn. Farangurinn skiptir a.m.k. hundruðum kílóa í hverri ferð.
Þorbjörn Jensson, sem Ingibjörg nefndi, var landsliðsþjálfari á árunum 1995 til 2001. iben@mbl.is