Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri á landsfundi flokksins sem er í næsta mánuði. Í samtali við Morgunblaðið sagðist Dagur hafa tekið þá ákvörðun fyrir nokkru að sækjast ekki eftir embættinu en einbeita sér að borgarmálunum.
Aðspurður hvort umræðan um nauðsyn þess að kona tæki við sem varaformaður í flokknum hafi haft áhrif á ákvörðunina segir Dagur að hann hafi þegar verið búinn að ákveða að láta af embætti þegar ljóst var að karl myndi taka við embætti formanns. Dagur sagði að tryggja þyrfti ákveðna breidd í forystusveitinni og sér fyndist það í takt við áherslur flokksins í jafnréttismálum að kona yrði varaformaður. heimirs@mbl.is