Róbert Sighvatsson
Róbert Sighvatsson
Íslendingar hafa aðeins einu sinni leikið gegn Katar á heimsmeistaramóti í handknattleik karla. Leikurinn fór fram í bænum Viseu í Portúgal á heimsmeistaramótinu fyrir tíu árum. Skemmst er frá því að segja að Ísland vann afar öruggan sigur, 42:22.

Íslendingar hafa aðeins einu sinni leikið gegn Katar á heimsmeistaramóti í handknattleik karla. Leikurinn fór fram í bænum Viseu í Portúgal á heimsmeistaramótinu fyrir tíu árum. Skemmst er frá því að segja að Ísland vann afar öruggan sigur, 42:22. Gunnar Berg Viktorsson var eini útileikmaðurinn í íslenska liðinu sem tók þátt í leiknum sem ekki náði að skora mark. Hornamaðurinn Gústaf Bjarnason og línumaðurinn Róbert Sighvatsson voru markahæstir með átta mörk hvor. Því má bæta við að Aron Kristjánsson, núverandi landsliðsþjálfari, skoraði þrisvar í leiknum.

Guðjón skoraði sautján

Síðast mættust Íslendingar og Katarbúar á handknattleiksvellinum í æfingamóti í Kristiansund í Noregi fyrir sjö árum. Þá skoraði Guðjón Valur Sigurðsson 17 mörk í 41:20 sigri Íslands. Sex leikmenn Íslands sem tóku þátt í leiknum í Kristiansund verða með íslenska landsliðinu á HM á Spáni þegar Íslendingar og Katarbúar leiða saman hesta sína í Sevilla í lokaumferð B-riðils föstudaginn 18. janúar. iben@mbl.is