Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
„Það er svo mikilvægt að stofna til tengsla með því að hittast,“ segir Halldór Árnason, formaður Þjóðræknisfélags Íslendinga, sem í samvinnu við Vesturfarasetrið á Hofsósi og Bændaferðir býður almenningi á kynningarhátíð um samskiptin við Vestur-Íslendinga á Icelandair Hótel Reykjavík Natura (gamla Loftleiðahótelið) á morgun.
Halldór segir að Snorraverkefnin hafi slegið í gegn á meðal fólks af íslenskum ættum í Norður-Ameríku og ástæða sé til að ætla að íslensk ungmenni hafi áhuga á að taka við kyndlinum af sama krafti. „Þegar hópurinn að vestan kemur hingað í sumar er hugmyndin að efna til fagnaðar með honum og íslenskum ungmennum, sem hafa áhuga á þessum kynnum,“ segir Halldór. „Þannig viljum við stuðla að því að koma á samskiptum á milli ungra afkomenda Íslendinga í Vesturheimi og jafnaldra þeirra á Íslandi.“
Markvisst starf
Markvisst hefur verið unnið að bættum samskiptum Íslendinga og fólks af íslenskum ættum í Vesturheimi síðan ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, sem tók við 1995, lét sig málið varða. Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, hafði í samráði við áhugamenn um samstarfið forgöngu um að Þjóðræknisfélagið var endurreist 1997 og síðan hefur félagið starfað í anda þess sem til var stofnað 1939 – að stofna til og rækta menningarleg og félagsleg tengsl við fólk af íslenskum ættum vestra. Atli Ásmundsson, aðstoðarmaður Halldórs, hafði þessi mál á sinni könnu í utanríkisráðuneytinu, en hann hefur fylgt þeim eftir í starfi sem aðalræðismaður Íslands í Winnipeg síðan 2004.ÞFÍ er í góðum tengslum við stjórn systurfélagsins í Norður-Ameríku. Halldór bendir á að árlega komi hingað fólk, sem sé virkt í félögunum vestra, og ÞFÍ sé því og öðrum gestum af íslenskum ættum gjarnan innan handar. Á hverju ári sæki fulltrúar ÞFÍ ársþing Þjóðræknisfélagsins í Vesturheimi og taki m.a. þátt í Íslendingahátíðum í Mountain í Norður-Dakóta og á Gimli í Manitoba. Kynningarhátíðin á morgun sé til þess ætluð að vekja athygli á þessu samstarfi. „Þetta er ný nálgun,“ segir Halldór og leggur áherslu á mikilvægi þess að ungt fólk tengist jafnöldrum sínum af íslenskum ættum vestra. „Til þess að Þjóðræknisfélagið deyi ekki út með þessari kynslóð sem nú er starfandi er endurnýjun mikilvæg, að virkja yngri kynslóðir. Þetta er fjárfesting til framtíðar.“
SNORRAVERKEFNIN TENGJA KYNSLÓÐIR HÉR OG VESTRA