Danmörk
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
Frændur okkar Danir höfnuðu í öðru sæti á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð fyrir tveimur árum og urðu síðan Evrópumeistarar í annað sinn fyrir ári í Belgrad. Þeir mættu því með nokkurri bjartsýni til leiks á Ólympíuleikana á liðnu sumri en brotlentu þar.
Í ljósi reynslunnar frá Ólympíuleikunum í sumar eru ekki sömu kröfur á danska landsliðinu og stundum áður. Menn kringum liðið eru jarðbundnari og segja HM á Spáni vera upphitun fyrir EM eftir ár sem fram fer í Danmörku. Það mót ætla Danir að taka með trompi.
Kannski má segja það sama um danska landsliðið og það íslenska: Þegar kröfurnar eru hvað minnstar verður árangur bestur.
Reyndur þjálfari
Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Dana, er gríðarlega reynslumikill. Hann náði frábærum árangri með danska kvennalandsliðið. Eftir að hann tók við karlaliðinu fyrir átta árum hefur hann lyft því upp og gert að einu því besta í heiminum. Danir hafa verið í verðlaunabaráttu á öllum stórmótum síðan Wilbek tók við ef Ólympíuleikarnir 2008 og 2012 eru undanskildir.Wilbek er frábær þjálfari sem les leikinn einstaklega vel. Hann er fljótur að bregðast við þeim stöðum sem kom upp í leikjum með einföldum og skýrum skilaboðum til sinna manna.
Eins og ævinlega hafa Danir úr mjög stórum hópi öflugra handknattleiksmanna að velja. Þótt einhver afföll verði á hópnum er breiddin í dönskum handknattleik mikil, meiri en t.d. í þeim íslenska. Þetta sást vel á EM í fyrra þegar nokkra sterka leikmenn vantaði í danska landsliðið. Þeir sem komu inn í hópinn voru öflugir og fyrir vikið náðu Danir að halda styrk sínum út mótið þótt byrjunin hafi verið erfið og þeir rétt sloppið inn í milliriðla án stiga.
Til marks um breiddina í dönskum handknattleik má nefna að ekki var pláss í 16-manna hópi Dana fyrir Morten Olsen leikstjórnanda, sem farið hefur á kostum með Burgdorf í þýsku 1. deildinni í vetur. Olsen er þriðji markahæsti leikmaður deildinnar.
Engin ástæða er til að ætla annað en danska landsliðið verði í verðlaunabaráttu á þessu móti eins og áður. Að vísu hefur útsláttarfyrirkomulagið, sem nú verður á mótinu, oft ekki hentað Dönum eins vel og gamla góða milliriðlakeppnin.
Hansen og Landin fremstir
Mikkel Hansen er helsta stjarna danska landsliðsins ásamt markverðinum Niklas Landin. Frábær frammistaða þeirra á EM í Serbíu lagði grunninn að gullverðlaunum Dana á mótinu. Hansen er frábær skytta. Hann er nautsterkur og illviðráðanlegur.Landin er framúrskarandi markvörður sem hefur tekið stórstígum framförum síðustu árin. Hann gekk til liðs við þýska liðið Rhein-Neckar Löwen á liðnu sumri og hefur notið leiðsagnar sænska markvarðarins Tomas Svenssons. Samvinna þeirra hefur aðeins orðið til þess að gera gott betra.
Fleiri frábæra leikmenn danska landsliðsins má nefna einnig s.s. hægri hornamanninn Hans Lindberg, markahæsta leikmann þýsku 1. deildarinnar, vinstri hornamanninn Anders Eggert, línumennina Jesper Nöddesbo og René Toft og Henrik Toft Hansen, en þeir eru bræður.
Undanfarin ár hefur danska landsliðið nær eingöngu leikið 6/0-vörn. Fyrir nokkru sagði Wilbek landsliðsþjálfari nauðsynlegt að Danir gætu einnig leikið 4/2 eða 5/1. Síðustu vikur hefur hann nýtt vel til þess að þróa fleiri varnarafbrigði hjá liðinu. Ljóst er að takist Dönum vel upp við breytingarnar verða þeir enn hættulegri en áður.
Viðureignir Íslendinga og Dana á stórmótum hafa yfirleitt verið hnífjafnar og æsispennandi og því er vert að gefa sér tíma til þess að fylgjast með viðureign þjóðanna sem hefst kl. 19.15 hinn 16. janúar.