Breytingar
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
Leikjafyrirkomulagi heimsmeistaramótsins í handknattleik karla á Spáni verður breytt frá síðasta móti. Segja má að nú sé aftur horfið til þess leikskipulags sem byrjað var með þegar keppnisþjóðum var fjölgað úr 16 í 24 frá og með HM á Íslandi árið 1995.
Sem fyrr verður leikið í fjórum sex liða riðlum í upphafi. Að riðlakeppninni lokinni halda fjórar efstu þjóðir hvers riðils áfram í 16-liða úrslit og þá hefst útsláttarkeppni. Sigurliðin í 16-liða úrslitum halda áfram í 8-liða úrslit en tapliðin halda heim á leið. Aftur verður útsláttarkeppni í 8-liða úrslitum þar sem sigurliðin halda áleiðis í undanúrslit en leikmenn tapliðanna pakka niður í töskur og halda heim á leið.
Undanúrslit taka þá við og loks úrslitaleikirnir um verðlaun síðustu helgi mótsins, 26. og 27. janúar.
Sú nýbreytni verður tekin upp nú að leikurinn um þriðja sætið fer fram á laugardeginum þannig að úrslitaleikurinn fær alla athyglina á lokadegi heimsmeistaramótsins, sunnudaginn 27. janúar.
Þetta keppnisfyrirkomulag sem nú verður á HM karla var tekið upp fyrir HM kvenna í Brasilíu í fyrra. Almenn ánægja var með fyrirkomulagið en það þótti auka mjög á spennu að hver leikur eftir riðlakeppnina skipti máli, þá var komið að hreinum úrslitaleikjum.
Milliriðlakeppni tekin upp í Portúgal
Þetta keppnisfyrirkomulag sem nú verður á heimsmeistaramótinu er það sama og var á mótunum frá 1995 til 2001. Frá og með mótinu 2003, sem haldið var í Portúgal, var tekin upp milliriðlakeppni með fjórum fjögurra liða riðlum, sem ekki féll í kramið. Á HM í Túnis var milliriðlum fækkað niður í tvo sex liða riðla. Það fyrirkomulag var einnig við lýði á HM 2007, 2009 og 2011.Á meðfylgjandi skýringarmynd má sjá hvernig fyrirkomulag verður á HM á Spáni. Eins og fyrr segir var það sama upp á teningnum á HM kvenna í í desember 2011. Þá hafnaði íslenska landsliðið í fjórða sæti í A-riðli og mætti Rússum, sem urðu efstir í B-riðli í 16-liða úrslitum. Rússar unnu örugglega og héldu áfram í 8-liða úrslit en leikmenn íslenska landsliðsins héldu til síns heima.
Á HM kvenna í fyrra var leikið um sæti fimm til átta. Það verður ekki gert á HM karla að þessu sinni. Ástæða þess að leikið var um sæti fimm til átta á HM kvenna í fyrra var sú að röðin skipti máli þegar kom að riðlaskiptingu vegna forkeppni Ólympíuleikanna.