Guðmundur fæddist í Reykjavík 11.1. 1932. Foreldrar hans voru Georg Júlíus Guðmundsson, stýrimaður í Reykjavík, og Jónína Ingibjörg Magnúsdóttir húsfreyja.

Guðmundur fæddist í Reykjavík 11.1. 1932. Foreldrar hans voru Georg Júlíus Guðmundsson, stýrimaður í Reykjavík, og Jónína Ingibjörg Magnúsdóttir húsfreyja. Georg var sonur Guðmundar Júlíusar Jónssonar, útvegsbónda í Görðum í Önundarfirði, og Gróu Finnsdóttur húsfreyju. Jónína var dóttir Magnúsar Jónssonar, skipstjóra í Reykjavík, og Sigurveigar Runólfsdóttur húsfreyju.

Guðmundur lauk stúdentsprófi frá MR 1952, prófi í læknisfræði frá HÍ 1960, doktorsprófi frá Háskólanum í Bonn 1966, og fékk viðurkenningu sem sérfræðingur í meinafræði 1967.

Guðmundur var aðstoðarlæknir við Landspítalann 1960-1961, héraðslæknir 1961, aðstoðarlæknir við meinafræðideild HÍ 1962-1963, stundaði sérfræðinám og var síðar aðstoðarlæknir í meinafræði við Háskólann í Bonn 1963-1968, sérfræðingur í líffærameinafræði við Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum 1968-1994 og var forstöðumaður þar og prófessor við læknadeild HÍ 1994-2001.

Meinafræði hefur lengi verið stór þáttur í vísindarannsóknum að Keldum en þar starfaði Guðmundur lengst af með príon- og veirusjúkdóma í sauðfé. Framlag hans efldi skilning á framgangi sjúkdóma og samspili hýsils og sýkils.

Guðmundur var sjálfur í mikilvægri alþjóðlegri samvinnu við vísindamenn beggja vegna Atlantshafs og sem forstöðumaður að Keldum vann hann að því að efla Tilraunastöðina sem alþjóðlega vísindastofnun.

Guðmundur var formaður Meinafræðifélags Íslands, formaður Samtaka herstöðvarandstæðinga, sat í stjórn Félags norrænna taugameinafræðinga, í stjórn líf- og læknisfræðideildar Vísindaráðs og var félagi í Vísindafélagi Íslendinga frá 1977.

Guðmundur var mikilvirkur fyrirlesari en eftir hann liggur mikill fjöldi vísindagreina.

Eftirlifandi eiginkona Guðmundar er Örbrún Halldórsdóttir og eignuðust þau fjögur börn.

Guðmundur lést 13.6. 2010.