Víkverji hallast að því að nýhafið ár verði gjöfult og gott, landsmönnum til ánægju og blessunar. Að minnsta kosti sumum.
Víkverji hallast að því að nýhafið ár verði gjöfult og gott, landsmönnum til ánægju og blessunar. Að minnsta kosti sumum.
Á ferð um götur höfuðborgarinnar sér Víkverji að margir ökumenn mega ekki vera að því að sinna akstrinum því þeir eru svo uppteknir við að tala í farsíma. Þetta veit auðvitað á ekkert nema gott. Töluð orð eru til alls fyrst og þó þau geti valdið miklum skelli, ekki síst undir stýri á stofnbrautum í hálu og slæmu skyggni, er um að gera að koma þeim frá sér áður en í óefni er komið.
Mörgum þykir miður að Íslendingar alist ekki upp við hirð og þekki því ekki hirðlíf nema af afspurn. Víkverji er alsæll með að vera ekki í konungsríki en tekur eftir að ákveðnir menn á þingi hafa tamið sér háttsemi hirðfífla. Sá sem gerir mest í því að draga Alþingi niður í svaðið minnir einna helst á Curley í sögu Johns Steinbecks um Mýs og menn og þeir sem fá ekki miða á samnefnt leikrit í Borgarleikhúsinu geta virt manninn og framgöngu hans fyrir sér á þingi. Tvær flugur í einu höggi þykir ekki slæmt.
Í áratugi hefur mönnum orðið tíðrætt um hornsteina samfélagsins. Þar hafa fjölskyldan, kirkjan, skólarnir og heilbrigðisþjónustan gegnt veigamiklu hlutverki en stjórnendur borgar og ríkis hafa séð að við svo búið má ekki öllu lengur standa. Þingmaður í kapphlaupi undir þrýstingi álasar nýkjörnum biskupi fyrir að vilja efna til almennrar söfnunar til að styrkja tækjakaup á Landspítalanum og prestum er bannað að fara með bænir með börnum í heimsókn í kirkjum. Þetta kallar Víkverji að hraustlega sé tekið á málum og hvað er betra en heilbrigð sál í hraustum líkama?