Tæknimaður „Frá Montréal suður með Bandaríkjunum um Karabíska hafið, til Mexíkó og víðar,“ segir Sturla Geir Pálsson.
Tæknimaður „Frá Montréal suður með Bandaríkjunum um Karabíska hafið, til Mexíkó og víðar,“ segir Sturla Geir Pálsson. — Ljósm/Úr einkasafni
Heimsóknir til fjarlægra landa eru lærdómsríkar. Síðustu árin hef ég komið til allra heimsálfanna og á marga áhugaverða staði.

Heimsóknir til fjarlægra landa eru lærdómsríkar. Síðustu árin hef ég komið til allra heimsálfanna og á marga áhugaverða staði. Ég heillaðist af Japan, vestrænu samfélagi í austri, og ekki síður var gaman að koma á mörgæsaslóðir á suðurskautinu; Antarktíku eins og landið er stundum nefnt,“ segir Sturla Geir Pálsson í Þorlákshöfn, sem er 42 ára í dag.

„Leikjatölvur áttu hug minn í æsku og svo rafeindatæknin en á því sviði aflaði ég mér menntunar,“ segir Sturla sem starfaði lengi við sjónvarpsstöðvar og ýmsa rafeindaþjónustu. Hefur síðustu árin verið í áhöfn The World, sem gert er út til skemmtisiglinga með efnafólk um höfin sjö. Skipið er um 50.000 tonn og tekur 250 farþega – sem aftur kallar á að um borð séu úrræðagóðir tæknimenn.

„Hvert úthald er tíu vikur. Síðasta ferð sem ég tók var frá Montréal suður með Bandaríkjunum um Karabíska hafið, til Mexíkó og víðar,“ segir Sturla. Þessar fjarvistir frá fjölskyldunni reyni vissulega á en tæknin hafi þó gert veruleikann bærilegri.

„Þótt ég sé á fjarlægum slóðum er fjölskyldan hjá mér og ég fylgist með. Tölum saman og sjáumst á skype,“ segir Sturla Geir sem er Stokkseyringur. Hefur sl. tuttugu ár búið í Þorlákshöfn, en þaðan er kona hans, Elsa Þorgilsdóttir, og eiga þau tvær dætur á unglingsaldri. sbs@mbl.is