SkjárEinn var með skemmtilega jóladagskrá í ár, sýndi meðal annars allar þrjár Lord of the Rings-myndirnar, sem var vel til fundið. Góð upphitun fyrir Hobbitann.
Fyrir yngri kynslóðina voru sýnd fjögur sígild ævintýri úr smiðju Astrid Lindgren, þar af eitt um hinn uppátækjasama Emil í Kattholti, sem skemmti börnunum á heimilinu.
Þrátt fyrir að Hringadróttinssaga hafi verið frábær skemmtun voru þættirnir Upstairs Downstairs eða Húsbændur og hjú eins og þeir hétu í gamla daga dagskrárefnið sem skemmti mér hvað mest. Um var að ræða þrjá tæplega klukkustundarlanga þætti, sem eru sjálfstætt framhald gömlu þáttanna sem voru sýndir á RÚV á áttunda áratugnum. Núna eru hins vegar komnir nýir húsbændur í húsið við 165 Eaton Place í Belgravia í London en eitthvað af þjónustufólkinu er hið sama. Allt útlit þáttanna er til fyrirmyndar og mikið lagt upp úr smáatriðum en þættirnir eru úr smiðju BBC. Sögulegir atburðir fléttast inn í atburðarásina en þeir gerast árið 1936. Búið er að framleiða sex þætti til viðbótar og vonandi tekur SkjárEinn þá einnig til sýningar.
Inga Rún Sigurðardóttir