— AFP
Að minnsta kosti ellefu hafa dáið af völdum hríðarbyls og norðangarra í Mið-Austurlöndum síðustu daga.

Að minnsta kosti ellefu hafa dáið af völdum hríðarbyls og norðangarra í Mið-Austurlöndum síðustu daga. Vetrarhretið hefur einnig aukið á þjáningar hundraða þúsunda sýrlenskra flóttamanna sem hafast við í tjöldum við landamæri grannríkjanna Jórdaníu, Tyrklands og Líbanons. Feðgar hjálpast hér að við að moka snjó frá tjaldi í flóttamannabúðum í Sýrlandi, nálægt landamærunum að Tyrklandi.

Hretið hefur einnig aukið neyðina meðal íbúa sýrlenskra borga sem eru orðnir uppiskroppa með eldsneyti til kyndingar. Þar að auki er algengt að rafmagnslaust verði vegna átaka og loftárása hers einræðisstjórnarinnar síðustu 22 mánuði.

Rafmagnslaust varð víða í Mið-Austurlöndum í gær vegna vetrarhretsins. Hríðarbyljirnir urðu einnig til þess að loka þurfti skólum í Líbanon, Sýrlandi, Jórdaníu og Ísrael. Ekkert hlé var þó gert á blóðsúthellingunum í Sýrlandi.