Frakkar mæta brattir til Spánar eftir sigur á Ólympíuleikunum en það var ekki hátt risið á þessu besta landsliði sögunnar á EM í Serbíu. Frakkar hafa unnið undanfarin tvö heimsmeistaramót og eru að vanda líklegir til sigurs. Þrátt fyrir að að hafa drottnað yfir alþjóðlegum handbolta undanfarin fjögur ár eru Frakkarnir engan veginn orðnir saddir.
„Þegar maður er búinn að vinna einn titil vill maður vinna aftur. Við fáum aldrei nóg. Við viljum vinna fleiri titla. Við erum nú þegar búnir að vinna fullt af titlum en við viljum fleiri. Að vita hversu marga titla við getum unnið til viðbótar í framtíðinni gefur okkur mikinn kraft,“ segir Thierry Omeyer, markvörður Frakka, í viðtali á heimasíðu evrópska handknattleikssambandsins, EHF.
Vinni Frakkar HM á Spáni verða þeir fyrsta liðið til að vinna þrjú heimsmeistaramót í röð.
Byrjum frá grunni á Spáni
„Það yrði frábært en að vinna svona mót er mjög erfitt. Þótt við höfum unnið síðustu tvö mót byrjum við bara frá grunni á Spáni þar sem samkeppnin verður gríðarleg. Það vilja allir vinna ríkjandi meistara þannig að öll liðin munu vilja vinna Frakkland. Svo eru svo mörg góð lið á mótinu,“ segir Omeyer sem spáir gestgjöfum Spánar góðu gengi á heimavelli. Hann nefnir ekki Ísland á nafn aðspurður um lið sem gætu gert góða hluti á mótinu.„Spánverjar hafa verið frábærir á síðustu mótum og munu njóta góðs af heimavellinum. Þeir eru líklegir í undanúrslit. Danir og Króatar eru vanalega á meðal efstu þjóða og bæði lið geta farið alla leið. En ég býst við einu til tveimur liðum sem gætu komið á óvart. Ég held að Pólland og Ungverjaland séu lið sem gætu jafnvel stolið sæti í undanúrslitunum,“ segir Thierry Omeyer. tomas@mbl.is