Góðgerðarsamkoma Karl Bretaprins stofnaði samtökin, hér með konu sinni.
Góðgerðarsamkoma Karl Bretaprins stofnaði samtökin, hér með konu sinni.
Ný könnun á vegum Prince's Trust, góðgerðarsamtaka fyrir bresk ungmenni, sýnir að einu af hverjum tíu ungmennum í Bretlandi finnst erfitt að höndla daglegt líf.

Ný könnun á vegum Prince's Trust, góðgerðarsamtaka fyrir bresk ungmenni, sýnir að einu af hverjum tíu ungmennum í Bretlandi finnst erfitt að höndla daglegt líf. Eru atvinnulaus ungmenni eða þau sem eru hvorki í námi né starfsþjálfun tvöfalt líklegri til að eiga í erfiðleikum.

Árleg könnun samtakanna var send til 2.136 ungmenna á aldrinum 16-25 ára. Alls sögðust 27% þeirra sem hafa atvinnnu ætíð eða oft vera niðurdregin eða þunglynd á móti 48% þeirra sem ekkert hafa við að vera. Einnig kom í ljós að 22% svarenda höfðu engan til að leita til með vandamál sín. Þótt talan sé há meðal þeirra sem hvorki stunda nám né atvinnu er hún þó heldur á niðurleið frá því í fyrra en þá sögðust 52% í þeim hópi ætíð eða oft niðurdregin eða þunglynd.

Þetta er í fimmta sinn sem slík könnun er gerð á lífshamingju ungmenna og er þar komið inn á ýmis svið lífsins, t.a.m. fjölskyldu og andlega sem líkamlega heilsu. Þykja þessar tölur marka almennt örlitla breytingu á sjálfsöryggi og hamingju ungmennanna.

„Lífið getur orðið niðurdrepandi endurtekning þegar fólk elst upp við erfiðar aðstæður og fær síðan ekki vinnu sem fullorðið fólk. Sú er oft raunin með þá sem ekki fá gott veganesti þá út í lífið en með réttum stuðningi getum við hjálpað þeim að komast aftur á beinu brautina,“ segir Martina Milburn, framkvæmdastjóri samtakanna. Kemur þetta fram í frétt á vefsíðu BBC.