Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Franska kvikmyndahátíðin sem hefst í dag er sú 13. í röðinni og haldin í Háskólabíói að vanda. Hátíðin er samstarfsverkefni franska sendiráðsins á Íslandi, Alliance française og Græna ljóssins hjá Senu og stendur hún til 24. janúar. Níu myndir frá frönskumælandi löndum verða sýndar á hátíðinni en opnunarmynd hennar er De rouille et d'os , eða Ryð og bein , eftir leikstjórann Jacques Audiard, mynd sem hefur notið mikilla vinsælda í Frakklandi og hlotið mikið lof gagnrýnenda.
Alliance française, franska sendiráðið og Sena velja myndirnar á hátíðina í sameiningu, að sögn Guðlaugar M. Jakobsdóttur, forseta Alliance française. Reynt hafi verið að fá á hátíðina myndir sem hafi notið vinsælda meðal almennings, myndir sem hafi fengið góða dreifingu á erlendum kvikmyndahátíðum og verðlaunamyndir. Á hátíðinni megi því finna bæði vinsælar og lofsungnar myndir.
Tvær aðalmyndir
Spurð að því hvort kalla megi á einhverja kvikmyndanna aðalmynd hátíðarinnar í ár bendir Guðlaug á opnunarmyndina, Ryð og bein . „En það sem er óvanalegt við hátíðina í ár er að það eru tvær aðalmyndir, mætti segja, tvær flottar myndir. Yfirleitt er það kannski ein sem er mjög áberandi en þarna eru tvær þungavigtarmyndin,“ segir Guðlaug en hin myndin er Amour , eða Ást , eftir Michael Haneke sem hlaut Gullpálmann, aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, í fyrra.Hvað Ryð og bein varðar segir Guðlaug að þema hennar sé ekki ósvipað þema Intouchables sem sló í gegn á Íslandi í fyrra. Í henni segi af vináttu sem þróist með tveimur ólíkum einstaklingum, manneskjum sem komi hvor úr sinni áttinni. Efnistökin séu þó öllu alvarlegri í Ryð og bein en Intouchables .
-Nú sýndi Intouchables að kvikmyndir á frönsku geta slegið í gegn á Íslandi. Hvað finnst þér um hlutfall franskra kvikmynda í bíóhúsum hér á landi? Það er ekki mjög hátt.
„Nei, það er alls ekki hátt. Frakkar hafa náttúrlega verið svolítið fastheldnir á að halda í heiðri sinni bíómenningu í kvikmyndagerð sem er kannski meira á listræna kantinum sem er mjög gott og fínt. Ég held að markaðurinn hafi ekki verið það stór eða einsleitur þangað til þessar kvikmyndahátíðir fóru að opna augu almennings fyrir því að það er eitthvað meira til en þessar amerísku. Ég held að það þurfi að koma meira úrval og ég held að Bíó Paradís sé að vinna ofsalega flott starf í þá átt,“ segir Guðlaug. Hún bendir á það að lokum að myndirnar á hátíðinni séu ekki allar frá Frakklandi heldur einnig öðrum löndum þar sem töluð sé franska. „Franska er ekki bara Frakkland.“
Sýnishorn úr öllum myndum hátíðarinnar má finna á YouTube-rás franska sendiráðsins: tinyurl.com/franska.
Myndirnar á Frönsku kvikmyndahátíðinni
Ryð og bein/De rouille et d'osStéphanie er farsæll háhyrningaþjálfari og á í ástarsambandi við Alain sem er hnefaleikamaður. Stéphanie lendir í skelfilegu slysi sem breytir lífi þeirra til frambúðar. Leikstjóri er Jacques Audiard og í aðalhlutverkum Marion Cotillard og Matthias Schoenaerts.
Ást/Amour
Myndin segir af öldruðum hjónum, George og Anne sem eru fyrrverandi píanókennarar. Anne fær heilablóðfall og aðstæður þeirra gjörbreytast. Leikstjóri er Michael Haneke og í aðalhlutverkum Jean-Lois Trintignant, Emmanuelle Riva og Isabelle Huppert.
Baneitrað/Un poison violent
Stórlaxarnir/Les barons
Hassan, Aziz og Mounir búa í Brussel og vilja fara sem allra stysta leið að því að verða ríkir og hamingjusamir. Gamanmynd eftir leikstjórann Katell Quillévéré. Í aðalhlutverkum eru Nader Bousssandel, Mourade Zeguendi og Monir Ait Hamou.
Jarðarförin hennar ömmu/Adieu Berthe - l'enterrement de mémé
Griðastaður/La clé des Champs
Töframaðurinn/L'illusioniste
Wolberg-fjölskyldan/La famille
Wolberg
Nénette og áhorfendurnir/Nénette