Aðeins tvær Norðurlandaþjóðir taka þátt í lokakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik karla að þessu sinni, Danmörk og Ísland. Noregur og Svíþjóð heltust úr lestinni að loknum umspilsleikjum Evrópu í vor líkt og Litháen, Tékkland, Portúgal, Slóvakía, Austurríki, Holland og Bosnía.
Noregur tapaði samtals með tveggja marka mun eftir tvær viðureignir við Ungverja og Svíar féllu óvænt úr leik fyrir baráttuglöðu liði Svartfellinga með eins marks mun, 41:40. Svartfellingar verða þar með þátttakendur á heimsmeistaramóti í fyrsta sinn eftir að ríkið sleit sambandi við Serba og varð sjálfstætt ríki 3. júní 2006.
Pólverjar lögðu Litháa auðveldlega með 11 marka mun í tveimur leikjum og Rússar skelltu Tékkum með fimm marka mun. Slóvenar unnu Portúgala auðveldlega á sama tíma og Hvít-Rússar unnu Slóvaka með eins marks mun í tveimur spennandi viðureignum. Makedóníumenn unnu lærisveina Patreks Jóhannessonar frá Austurríki með tveggja marka mun, Þjóðverjar höfðu betur gegn Bosníu og íslenska landsliðið vann Hollendinga afar örugglega, með 22 marka mun í tveimur leikjum.
Í janúar í fyrra fór fram forkeppni fyrir umspilsleikina sem 21 landslið tók þátt í og var þeim skipt niður í sjö riðla. Sigurliðin komust áfram í umspilið. Þau voru: Austurríki, Bosnía, Holland, Hvíta-Rússland, Litháen, Portúgal og Svartfjallaland. iben@mbl.is