Þetta var skemmtileg sýning og Karíus og Baktus voru bara sætir.“ Svo hljóðaði umsögn sonar míns á fimmta ári að lokinni sýningu á leikritinu Karíus og Baktus í Þjóðleikhúsinu. Nokkur uggur var í honum fyrir sýningu um að Karíus og Baktus yrðu ljótir og ógnvænlegir enda oft notaðir sem hálfgerðar grýlur í uppeldinu þegar kemur að sælgætisáti og tannburstun. En svo var ekki með þá kappa í þetta sinn, þeir voru bara sætir og svolítið aumkunarverðir.
Leikritið var frumsýnt um síðustu helgi og fer fram á litla sviðinu í Kúlunni sem hentar afskaplega vel til barnasýninga. Þessi uppsetning er góð fyrir yngstu börnin. Um er að ræða hálftíma sýningu þar sem stiklað er á því helsta í dvöl Karíusar og Baktusar í munni Jens. Lengd sýningarinnar er passleg og er frásögnin hnitmiðuð og góð en rödd sögumanns skiptir henni í fjóra kafla. Sögu Thorbjörns Egners þekkja flestir og óþarfi að tíunda hana hér.
Friðrik Friðriksson og Ágústa Eva Erlendsdóttir fara með hlutverk bræðranna og standa sig stórkostlega vel. Friðrik er eins og skapaður til að leika fyrir börn. Ég sá hann líka í hlutverki litla skrímslisins í uppsetningu Þjóðleikhússins í Kúlunni síðasta vetur á Stóra skrímslinu og litla skrímslinu . Þar lék hann einnig listilega vel. Hann fer með hlutverk Karíusar og er hvort tveggja tjáning hans og framburður óaðfinnanlegt í þessu verki. Raddbeiting Ágústu var hennar veikasti þáttur en leikur hennar sem Baktus var annars frábær. Hún stóð sig vel í hlutverki hins ævintýragjarna og kærulausa Baktusar og gæddi hann séstöku lífi.
Leikmyndin hentar rýminu og uppsetningunni mjög vel og er vel útfærð, hún er einföld en hefur allt sem þarf. Gott þótti mér að hljóðið var hófstillt og tónlistin vel útsett af meðlimum Pollapönks.
Það er ekkert annað um þessa uppsetningu Þjóðleikhússins á Karíus og Baktus að segja en að ég og sonur minn skemmtum okkur konunglega. Þetta er kröftug sýning, vel útfærð, fjörug og skemmtileg og um meira er ekki hægt að biðja í leikhúsi.
Ingveldur Geirsdóttir