Fjárfestir Bjarni Ármannsson styður við bakið á ungu fyrirtæki.
Fjárfestir Bjarni Ármannsson styður við bakið á ungu fyrirtæki. — Morgunblaðið/Frikki
Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Bjarni Ármannsson fjárfestir keypti rúmlega 40% hlut í Keldunni fyrir 20 milljónir króna. Hann keypti bréfin í hlutafjáraukningu í sumar. Fram kom í Morgunblaðinu í síðustu viku að Bjarni hefði keypt hlutinn.

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Bjarni Ármannsson fjárfestir keypti rúmlega 40% hlut í Keldunni fyrir 20 milljónir króna. Hann keypti bréfin í hlutafjáraukningu í sumar.

Fram kom í Morgunblaðinu í síðustu viku að Bjarni hefði keypt hlutinn. Fram kemur í gögnum til Hlutafélagaskrár að hlutafjáraukningin hafi numið 30 milljónum króna en tveir hluthafar breyttu 10 milljóna króna kröfu á félagið í hlutafé. Halldór Friðrik Þorsteinsson, stofnandi Hf. Verðbréfa, lánaði félaginu níu milljónir sumarið 2011 og Gunnar Halldór Sverrisson, sem stýrir Íslenskum aðalverktökum, eina milljón veturinn 2011. Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, er stjórnarformaður Keldunnar.

Um er að ræða lítið þriggja manna fyrirtæki sem stofnað var haustið 2009 og er ekki enn farið að skila hagnaði. Bjarni sagðist í Morgunblaðinu í liðinni viku hafa áhuga á að styðja við bakið á Keldunni til að efla góða og óháða upplýsingagjöf fyrir fjármálamarkaðinn.

Keppinautur Keldunnar er CreditInfo. „Okkur fannst það verðugt verkefni að veita þeim samkeppni,“ sagði Friðrik Guðjónsson, framkvæmdastjóri Keldunnar, við Morgunblaðið í liðinni viku.