Skurðaðgerð Lýtalæknir segir að það sé áhættulítið að láta fjarlægja eitla í handarkrika sem silíkon hefur sest í vegna lekra brjóstapúða.
Skurðaðgerð Lýtalæknir segir að það sé áhættulítið að láta fjarlægja eitla í handarkrika sem silíkon hefur sest í vegna lekra brjóstapúða. — Morgunblaðið/Ómar
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Svo virðist sem silíkon í eitlum sé algengur fylgikvilli þess að hafa verið með sprunginn PIP-brjóstapúða.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Svo virðist sem silíkon í eitlum sé algengur fylgikvilli þess að hafa verið með sprunginn PIP-brjóstapúða. Af þeim 354 konum með PIP-brjóstapúða sem mættu í ómskoðun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í fyrra voru 203 með sprungna púða. Silíkon greindist í eitlum hjá 126 þeirra. Þar af út frá báðum brjóstum hjá 46 kvennanna samkvæmt samantekt Leitarstöðvarinnar. Konurnar voru ómskoðaðar með tilliti til brjósta og eitlastöðva.

Engar vísbendingar eru um að silíkon í eitlum sé hættulegt heilsu manna. Samkvæmt upplýsingum frá lýtalækni á að vera lítið mál að fjarlægja eitla sem silíkon hefur sest í. Slíkar aðgerðir eru gerðar hér á landi og á ekki að vera mikil áhætta að fara í þær. Hann segir það mjög sjaldgæft að silíkon komist í eitla út frá brjóstapúðum, um einstaka tilvik sé að ræða. „En þá er ég ekki að tala um öfgatilfelli eins og með PIP-brjóstapúðana. Í PIP-púðunum var annað silíkon en í löglegum púðum og það gæti valdið öðruvísi ertingu,“ segir lýtalæknirinn, sem notaði aldrei PIP-brjóstapúða.

Samfélagið vaknaði

Spurður hvernig silíkon í eitlum sé fjarlægt svarar hann að oftast sé um að ræða eitla í holhöndum þar sem eitlastöðvarnar fyrir brjóstasvæðið eru. „Laust silíkon getur í einstaka tilvikum skilað sér með eitlabrautum inn í eitlana og safnast þar upp. Þar tekur eitillinn, sem er partur af ofnæmiskerfinu, við þessum efnum og byrjar að skrásetja þau með það fyrir augum að búa sér til varnir. Eitillinn getur stækkað, sést í ómskoðun og veldur jafnvel einhverjum einkennum. Þarna eru um 20-30 aðrir eitlar sem lenda kannski ekki í silíkoni. Þá er gerður lítill skurður og eitillinn með silíkoninu tekinn út. Það á ekkert að koma að sök.

Það getur líka verið silíkon eftir í vefjum sem á eftir að skila sér út í eitlana þannig að það verður að fylgjast með sumum einstaklingum.“

Silíkon í eitlum er eitt af því sem er talið upp sem áhætta þegar konur fá sér brjóstapúða. Lýtalæknirinn segir að í kjölfar PIP-málsins hafi samfélagið vaknað varðandi slík mál. „Margir, sem eru ekki með PIP-púða, hafa komið og látið líta á sig og fengið fræðsluna upp á nýtt, þá vita þeir sem koma í aðgerð orðið meira um það sem þeir eru að fá sér. PIP-málið hefur líka kostað marga kvíða, depurð og angist því þær konur sem voru ekki með PIP fóru að hafa áhyggjur af sínu ástandi.“

SJÚKLINGAR FÁ AFHENT KORT MEÐ UPPLÝSINGUM UM VÖRUNA

Varan á að vera rekjanleg

Þeir sem fara í sílikonaðgerð fá afhent kort með upplýsingum um vöruna sem er sett í þá. Á kortinu má bæði sjá strikamerki og framleiðslunúmer vörunnar og víða er líka hægt að sjá hvaða einstaklingur í verksmiðjunni handfjatlaði sílikonpúðana. Þannig á varan að vera alveg rekjanleg ef eitthvað kemur upp á.

„Þetta kort hefur alltaf fylgt vörunni, það er ekkert nýtt, en svo gæti hafa verið misbrestur á því áður fyrr hvort lýtalæknirinn lét sjúklinginn sjálfan fá kortið eða límdi það inn í möppu hjá sér, það er hægt að gera hvort tveggja. Í dag er það alveg á hreinu að sjúklingurinn fær kortið afhent,“ segir lýtalæknirinn.