Eins og fram kemur í skilmerkilegri og afar upplýsandi grein Sigurbjörns Svavarssonar rekstrarhagfræðings í Mbl. þann 4. janúar er hægt að mæla neysluvísitölu á mismunandi vegu.
Samkvæmt núgildandi „kerfi“ er neysluvísitalan eða vísitala neysluverðs (VNV) ákveðin á grundvelli verðlagsbreytinga vöru og þjónustu á ákveðnu tímabili. Hún ákvarðast sem sagt ekki með hliðsjón af neyslu eða neyslumagni samfélagsins á því sama tímabili.
Sé þróun á vísitölu neysluverðs rakin frá 2007 til loka 2011 kemur eftirfarandi í ljós:
(sjá töflu 1)
Vísitala neysluverðs er 38% hærri árið 2011 en árið 2007.
Hver skyldi þróun vísitölu neyslumagns fyrir sama tímabil vera? Það sést með því að skoða neysluútgjöld heimilanna.
(sjá töflu 2)
Vísitala neyslumagns er einungis 11,9% hærri 2011 en 2007.
Augaleið gefur að neytendur haga útgjöldum sínum með hliðsjón af verði á hverjum tíma. Hækkað verð leiðir til minni neyslu og því minni útgjalda. Eftirspurn er sem sagt háð verði eins og þekkt er.
Þetta sýnir Sigurbjörn glögglega fram á í grein sinni og sýnir, svart á hvítu, hinn gífurlega mismun á „raunverulegri“ verðbólgu áranna 2007 til 2011 annars vegar og reiknaðri verðbólgu hins vegar.
(sjá töflu 3)
Hvaða áhrif hefur þessi mismunur haft á verðtryggð lán?
Eins og sést á töflunni hér að ofan er raunveruleg verðbólga frá 2007 til 2011 einungis 11,9% en ekki 38%.
Allir sjá í hendi sér hversu gífurlegur munur er þarna á milli og hversu miklu sá munur skiptir varðandi breytingu á greiðslubyrði vertryggðra lána sem og hækkun á höfuðstól þeirra á fyrrnefndu tímabili.
Mér reiknast til að mismunurinn nemi 412 milljörðum króna. Þannig hækkuðu öll vertryggð lán á landinu, til heimila og fyrirtækja, um 38% eða 600 milljarða króna frá ársbyrjun 2008 til loka 2011. Hefði vísitölu neyslumagns verið beitt á þessu tímabili hefði breytingin orðið 11,9% til hækkunar og því 188 milljarðar. Sem sagt 412 milljörðum lægri.
Sigurbjörn bendir á að skuldir heimilanna hafi aukist um 445 milljarða á þessu tiltekna tímabili vegna verðtryggingarinnar án þess að þau hafi á nokkurn hátt skapað þær skuldir með aðgerðum sínum eða hegðan.
20 milljóna verðtryggt lán sem hækkað hefur um 38% eða 7,6 milljónir á tímabilinu hefði einungis hækkað um 2,38 milljónir með beitingu neyslumagnsvísitölu. Munurinn á einu slíku láni er rúmar 5,2 milljónir króna. Þetta er eignaupptaka, sem eflaust á sér hvergi hliðstæðu. Eignaupptaka sem byggist á sýndarverðbólgu, er mælir ekki raunveruleg efnahagsleg verðmæti.
Það er hróplegt óréttlæti að láta skuldara vertryggðra lána sitja uppi með þennan bagga, sem byggist á „ímyndaðri“ verðbólgu. Það er ótvíræð áskorun og verkefni þeirra stjórnmálamanna, sem kosnir verða til forystu og þingstarfa á vori komanda að létta byrðar skuldugra heimila og fyrirtækja að sanngjörnum mörkum. Ekki er við því að búast af núverandi valdhöfum að frekar verði að gert í málefnum skuldugra og eignalausra, arðrændra heimila. Skjaldborg sú er hrunin til grunna. Það má þess vegna taka 5 til 10 ár í að vinda ofan af þessum 450 milljarða pakka. Skattleggja mætti meirihluta, jafnvel allt að 75% hluta hagnaðar fjármálafyrirtækja til að afla tekna á móti.
Auðvitað leysist þó málið af sjálfu sér verði verðtryggingin sem slík dæmd ólögleg, eða hvað?
Ofteknu fé verður í öllu falli að skila til raunverulegra eigenda þess. Um það verður að nást þjóðarsátt.
Höfundur er viðskiptafræðingur og sölustjóri Margmiðlunar ehf.