K enny Dalglish gæti verið á leið til starfa hjá Liverpool á ný, átta mánuðum eftir að hann var rekinn úr starfi knattspyrnustjóra félagsins. Eigendur Liverpool, John W. Henry og Tom Werner , hafa í huga að bjóða Dalglish hans gamla starf, sem sendiherra félagsins, en þeir héldu öllum dyrum opnum fyrir hann síðasta vor og sögðu þá að Dalglish yrði alltaf hluti af Liverpool-fjölskyldunni. BBC skýrir frá þessu og segir að samkvæmt sínum heimildum sé Brendan Rodgers knattspyrnustjóri, sem ráðinn var í stað Dalglishs, jákvæður fyrir hugmyndinni. Dalglish var leikmaður Liverpool frá 1977 til 1990 og knattspyrnustjóri 1985-91 og 2011-2012.
Bandaríska körfuknattleiksliðið Minnesota Timberwolves hefur orðið fyrir miklu áfalli því nú er ljóst að aðalskorari liðsins, Kevin Love , verður frá keppni næstu tíu vikurnar eða svo. Love handarbrotnaði í leik gegn Denver 3. janúar og hann hefur nú gengist undir uppskurð á höndinni. Minnesota er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni NBA, er núna í tíunda sæti Vesturdeildarinnar, en átta efstu liðin fara áfram. Love varð Ólympíumeistari með Bandaríkjunum í London síðasta sumar og er stigahæstur hjá Minnesota í vetur með 18,3 stig að meðaltali í leik, og auk þess 14 fráköst í leik.
Kylfingurinn Tiger Woods hefur staðfest að fyrsta mót hans á nýju ári verði Abu Dhabi meistaramótið sem hefst í Sameinuðu arabísku furstadæmunum næsta fimmtudag, 17. janúar. Hann heldur síðan heim til Bandaríkjanna og keppir á PGA-móti í Torrey Pines sem hefst 24. janúar. Þar hefur hann verið mjög sigursæll um árabil og unnið sex sinnum, enda segir hann völlinn vera hálfgerðan heimavöll sinn.