Erfitt er að gera sér í hugarlund að búa við aðstæður þar sem tjáningarfrelsi eru settar skorður af yfirvöldum. Þar sem fólk er dæmt til refsingar, jafnvel áralangrar fangelsisvistar fyrir að gagnrýna stjórnvöld, einstaka ráðamenn eða ákvarðanir þeirra.

Erfitt er að gera sér í hugarlund að búa við aðstæður þar sem tjáningarfrelsi eru settar skorður af yfirvöldum. Þar sem fólk er dæmt til refsingar, jafnvel áralangrar fangelsisvistar fyrir að gagnrýna stjórnvöld, einstaka ráðamenn eða ákvarðanir þeirra. Þar sem efni bloggs og samskiptasíðna er ritskoðað og því hent út sem ekki er í samræmi við það sem æskilegt þykir. Sums staðar láta stjórnvöld loka stórum hlutum netsins af einskærri „umhyggju“ fyrir þegnum sínum þannig að þeir komist ekki í tæri við „úrkynjað eða spillt“ efni. Stundum les maður svona fréttir og verður alltaf jafn hugsi yfir slíkri samfélagsgerð og prísar sig jafnframt sælan fyrir að búa ekki í þessum löndum.

En það er líka til annars konar ritskoðun. Hún er ekki á vegum opinberra aðila, heldur hreint og klárt einstaklingsframtak fólks sem virðist ekki geta orðið svefnsamt ef það verður þess áskynja að aðrir hafi aðrar skoðanir eða aðhyllist annars konar hugmyndafræði en það sjálft. Ritskoðun af þessu tagi er fyrst og fremst stunduð á netinu, á ýmsum samskiptamiðlum, spjallrásum og athugasemdakerfum fjölmiðla, en þeir sem lengst hafa náð í þessu fagi hika ekki við að beita öðrum aðferðum. Stórkarlalegar hótanir virðast eiga mjög upp á pallborðið hjá þessum hóp og þeim er komið á framfæri með ýmsum hætti; símtölum, tölvupóstum eða bréfum. Svo bregða sumir á það ráð að skrifa ljóta hluti, stofna síður í nafni viðkomandi á samskiptamiðlum og þeir allra lengst komnu hóta síðan líkamsmeiðingum og viðbjóðslegum misþyrmingum.

Stundum er svona athæfi kallað skoðanakúgun.

Hvaða skoðanir ætli það séu sem verða til þess að fólk er tilbúið að leggja æru sína undir til að koma því á framfæri að það er ekki sammála þeim? Með þessu er átt við að það getur varla komið sér vel fyrir mannorð fólks þegar það eys óhróðri yfir annað fólk fyrir allra augum á netinu, oftar en ekki undir fullu nafni og með mynd í þokkabót. Flestir hljóta að átta sig á því að fjölmargir, þeirra á meðal atvinnurekendur fletta fólki upp á netinu þegar það sækir um vinnu. Undirrituð getur vart ímyndað sér að úthúðun á öðru fólki og skoðunum þess með gífuryrðum á opinberum vettvangi sé fólki almennt til framdráttar.

Hvað skyldi það vera sem vekur svona gríðarlega sterk viðbrögð? Er kannski verið að leggja til að þrælahald verði löglegt eða færa giftingaraldurinn niður í sjö ára? Nei, ekkert af framangreindu. Svo einkennilegt sem það kann að virðast, þá eru það umræður um jafnréttismál sem vekja þessi viðbrögð. Skrif og ummæli fólks, sem telur að betur megi gera í þessum efnum, fólks sem vekur máls á ýmsum margsönnuðum staðreyndum eins og til dæmis launamisrétti og leggur til leiðir til að draga úr því. Er nema von að maður spyrji sig: Er virkilega ástæða til að bregðast svona við? annalilja@mbl.is

Anna Lilja Þórisdóttir

Höf.: Anna Lilja Þórisdóttir